Innlent

Menn farnir að sjá til lands í kjaradeilunni við ríkið

Aðalheiður Steingrímsdóttir.
Aðalheiður Steingrímsdóttir. vísir/heiða
Formaður samninganefndar Félags framhaldsskólakennara segir að menn séu farnir að sjá til lands í kjaradeilunni við ríkið og að mikil áhersla sé lögð á að ná samningum í þessari viku. Enn sé niðurstaða þó ekki í sjónmáli í sjálfum launaliðnum.

Á morgun hefur verkfall framhaldsskólakennara staðið yfir í tvær vikur. Samningafundir hafa staðið yfir alla helgina og hófust aftur klukkan tíu í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður samninganefndar Félags framhaldsskólakennara, vonar að deilan leysist í þessari viku, en aðeins 16 kennsludagar eru eftir fram að prófum í maí.

„Þetta mætti nú alveg ganga hraðar en þetta þokast nú samt áfram. Við erum farin að sjá til lands í sumum málum en ekki öllum. Ég vona að það verði góður afrakstur eftir helgina. Þetta þokaðist áfram í gær og gerir það vonandi líka í dag. “

Aðalheiður segir að menn séu þó enn ekki farnir að sjá til lands með sjálfan launalið samninganna.

„En það fer að koma að því vonandi. Það er þá aðallega að aðlaga kjarasamninga að ákvæðum framhaldsskólalaganna frá 2008. Það hefur verið í umræðu milli aðila um nýtt vinnumat fyrir kennarastarfið. Einkum í þeim málum að við erum farin að sjá til lands með.“

Hún segir að gríðarleg áhersla sé lögð á að ná utan um öll mál samninganna í þessari viku þannig að verkfallið dragist ekki á langinn.

„Við leggjum mjög mikla áherslu á að verkfallið verði ekki langt. “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×