Innlent

Fimm óumbeðnar milljónir til húss í einkaeigu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
MYND/BJÖRN INGI BJARNASON/Pjetur
Sveitarfélagið Árborg fékk fimm milljón króna styrk á dögunum frá Minjastofnun til að ráðast í endurbætur á húsinu Ingólfi á Selfossi.

Miljónunum fimm verður varið í að gera sökkul undir húsið, sem er í einkaeigu og flytja það í miðbæ Selfoss.

Bæjarfulltrúar S-lista í Árborg, þau Arna Ír Gunnarsdóttir og Eggert Valur Guðmundsson, hafa furðað sig á úthlutuninni því engin formleg umsókn var send til Minjastofnunar vegna þessa verkefnis.

Fulltrúarnir vöktu máls á undrun sinni á bæjarstjórnarfundi á miðvikudaginn og lýstu því yfir að um leið og þau fögnuðu framlögunum þá furðuðu þau sig á umræddri styrkveitingu til handa húsinu Ingólfi.

„Það hlýtur að vera afar sérstakt að sveitarfélag fái úthlutað óumbeðnum styrk að upphæð fimm milljónir króna til uppbyggingar á húsi í eigu einkaaðila,“ segir í bókun Örnu og Eggerts.

Þetta kemur fram í frétt Sunnlenska af málinu.

Minjastofnun heyrir undir forsætisráðuneytið eftir að núverandi ríkisstjórn flutti hana úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu og er úthlutunin undirrituð af Sigmundi Davíð Gunnlaugsyni forsætisráðherra.

Bókun bæjarfulltrúana er eftirfarandi:

Um leið og undirrituð fagna því að framlög frá ríkinu koma til sveitarfélagsins lýsum við  undrun okkar á styrkveitingu til sveitarfélagsins, dags. 27- 12- 2013, undirritaðri af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, til uppbyggingar og flutnings á húsinu Ingólfi sérstaklega vegna þess að ekki hefur verið lögð fram formleg umsókn vegna verkefnisins af hálfu sveitarfélagsins, enda umrætt hús í einkaeigu. Það hlýtur að vera afar sérstakt að sveitarfélag fái úthlutuðum óumbeðnum styrk að upphæð 5.000.000 kr, til uppbyggingar á húsi í eigu einkaaðila.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista



Þetta er ekki í fyrsta sinn sem styrkveitingar ráðuneytisins hafa vakið furðu en Vísir hefur greint frá tveggja milljón króna úthlutun til Ísafjarðarbæjar sem einnig var óumbeðin og lesa má um hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×