Innlent

Helgi Magnússon: Grímulaus svik við kjósendur

Helgi Magnússon, framkvæmdastjóri og fyrrv. formaður Samtaka iðnaðarins
Helgi Magnússon, framkvæmdastjóri og fyrrv. formaður Samtaka iðnaðarins
Helgi Magnússon, fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins, segir í harðorðum pistli í Fréttablaðinu í dag að ríkisstjórnin hafi ákveðið að beita sér fyrir grímulausum svikum við kjósendur, með því að áforma að slíta viðræðum við ESB, án þess að þjóðaratkvæðagreiðsla um málið fari fyrst fram.

Í greininni sem ber yfirskriftina „Verklaus ríkisstjórn - sagan endurtekur sig“, fer Helgi yfir það hverju ríkisstjórnin hafi áorkað það sem af er kjörtímabilinu.

Hann bendir á að nú séu liðnir níu mánuðir frá því stjórnin tók við og að hans mati hefur lítið þokast til hins betra. Helgi segir að skattar hafi ekki verið lækkaðir svo neinu nemi, ekki hafi verið farið í aukna nýtingu orkuauðlinda, verðtrygging hafi ekki verið afnumin og ekki hafi verið farið í átak í samgönguframkvæmdum, svo dæmi séu tekin en alls telur Helgi upp tíu atriði máli sínu til stuðnings.

Hvað Evrópumálin varðar bendir Helgi á að stjórnin hafi ekki beitt sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna sem hafi þó verið eitt af kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninga.

Þvert á móti hafi ríkisstjórnin ákveðið að að beita sér fyrir grímulausum svikum við kjósendur í því efni, eins og hann orðar það, þrátt fyrir ótvíræð loforð.

Að lokum segir Helgi að hann og aðrir sem hafi gagnrýnt fyrri ríkisstjórn fyrir verkleysi og kosið þá flokka sem mynda núvernandi stjórn hljóti að spyrja sig til hvers hafi verið barist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×