Innlent

Umræða um þingsályktunartillögu Gunnars Braga tekin af dagskrá Alþingis

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Þingflokksformennirnir gengu af fundi með Einari K. Guðfinnsyni í morgun.
Þingflokksformennirnir gengu af fundi með Einari K. Guðfinnsyni í morgun.
Búið er að taka umræðu um þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar, sem felur í sér að aðildarumsókn Íslands í Evrópusambandið verði dregin til baka, af dagskrá þingsins í dag.

Þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna gerðu þá kröfu, á fundi með Einari K. Guðfinnssyni í morgun, að þingsályktunartillaga utanríkisráðherra yrði tekin af dagskrá í dag.

Þingflokksformennirnir voru ósáttir með hvernig tilkynnt var um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar og vildu að málið yrði tekið af dagskrá. Einar vildi ekki verða við þeirri bón og gengu formennirnir því af fundinum ósáttir.

Í samtali við Vísi, staðfesti Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar að málið hafi verið tekið af dagskrá, að Einar hafi orðið við bón þingflokksformannanna. 

„Okkur var tilkynnt um að málið hefði formlega verið tekið af dagskrá og fastlega er gert ráð fyrir því að það fari aftur á dagskrá á morgun,“ segir Róbert.

Þó að málið hafi verið á dagskrá þingsins í dag var ólíklegt að til umræðu hefði komið. „Það eru gríðarlega margir á mælendaskrá vegna umræðunnar um skýrslu Hagfræðistofnunar og umræðan um þingsályktunartillöguna hefði líklega aldrei orðið. En við tökum viljan fyrir verkið,“ segir Róbert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×