Innlent

Meirihluti vill þjóðaratkvæðagreiðslu

Í ljósi umræðu um aðildarviðræður Íslands við ESB ákváðu Samtök atvinnulífsins að kanna viðhorf aðildarfyrirtækja SA til þess hvort slíta beri viðræðunum eða ekki. Jafnframt hvort efna eigi til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB eða ekki, og  tímasetningu mögulegrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Niðurstöður könnunarinnar liggja nú fyrir.

38,1% þeirra aðildarfyrirtækja SA sem svöruðu könnuninni vilja slíta aðildarviðræðum en 55,8% eru því andvíg.  6,1% tóku ekki afstöðu. Þegar einungis er litið til þeirra sem tóku afstöðu vilja 40,6% slíta viðræðum en 59,4% eru því andvíg.



36,9% aðildarfyrirtækja SA vilja ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna Íslands við ESB en 63,1% eru því fylgjandi.



Þeir sem vilja efna til þjóðaratkvæðagreiðslu voru spurðir að því hvenær þeir vildu að hún færi helst fram. 85,2% svöruðu samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum. 8,6% svöruðu síðar á kjörtímabili Alþingis, 4,8% svöruðu samhliða næstu Alþingiskosningum sem verða vorið 2017 en 1,4% nefndu á öðrum tíma, t.d. þegar meirihluti væri fyrir aðild að ESB á Alþingi.



Könnunin hófst fimmtudaginn 20. febrúar en lauk á hádegi í dag. Könnunin var send til 1.896 stjórnenda, fjöldi svarenda var 703 og svarhlutfall því  rúm 37%. Framkvæmd könnunarinnar var í höndum fyrirtækisins Outcome-hugbúnaðar. Niðurstöðurnar eru birtar á vef SA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×