Innlent

Aðgengi fyrir fatlaða er ábótavant

Birta Björnsdóttir skrifar
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var sagt frá harðri gagnrýni á skort á aðgengi fyrir fólk í hjólastólum á nýuppgerðri Hverfisgötunni.

„Þessu er að einhverju leiti ábótavant, ekki ætla ég neitt að draga úr því," segir Ámundi Brynjólfsson, skrifstofustóri hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

„Aðstæður hér eru talsvert erfiðar. Ef óskað er eftir því að við verðum með húseigendum að bæta aðgengið þá er það gert en aðgengi að húsum er á ábyrgð húseigenda. Borgin er hinsvegar tilbúin að koma til móts við þessa húseigendur óski þeir þess að bæta aðgengi hjá sér, svo framarlega að það rýri ekki gæði götunnar."

Ámundi þvertekur fyrir að gleymst hafi að hugsa fyrir aðgengi fyrir fatlaða á Hverfisgötunni. Hann segir að ein beiðni hafi borist frá húseigendum um aðgengismál áður en ráðist var í framkvæmdirnar og orðið hafi verið við henni.

Hluti af framtíðarsýn Reykjavíkurborgar er meðal annars að tryggja fötluðum aðgengi að þjónustu í nærumhverfi borgarbúa. Ámundi segir að vissulega hefði það verið heppilegra ef borgin hefði gengið á eftir því við húsnæðiseigendur að þessir hlutir væru í lagi, sama hver myndi bera kostnaðinn. Stendur til að bregðast við gagnrýninni á einhvern hátt?

„Endanlegum framkvæmdum er ekki lokið og það er viðtekin venja að bregðast við gagnrýni ef talin er ástæða til," segir Ámundi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.