Innlent

Lögreglan að sigra vélhjólagengin

Jakob Bjarnar skrifar
Hell's Angels farnir úr Hafnarfirði.
Hell's Angels farnir úr Hafnarfirði.
Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn er í viðtali við Hafnfirska fréttamiðilinn Gaflari.is og segir þar að vélhjólasamtökin Hell's Angels séu flutt úr bænum. Auk þess kemur fram að Outlaws hafi mjög dregið úr starfsemi í Hafnarfirði.

„Lögreglan telur sig hafa yfirhöndina í baráttunni við vélhjólagengi en þó ber að varast að draga ályktanir. Líklegt verður að teljast að gengin reyni að styrkja sig á næstu misserum þó lögreglan haldi áfram uppi öflugri vinnu gegn því þjóðfélagsmeini sem vélhjólagengi eru,“ segir Karl Steinar í samtali við miðilinn.

Þar greinir frá því að Hell’s Angels höfðu komið sér vel fyrir í Hafnarfirði en bækistöðvar samtakanna að Gjáhellu. Nú eru samtökin þau flutt úr Hafnarfirði en ekki kemur fram hvert. Og Outlaws hafa sig hæga en bækistöðvar þeirra eru við Hvaleyrarbraut. Gaflari greinir frá því að lögreglan hafi tíð afskipti af samtökunum og áhangendum þeirra vegna gruns um afbrot og verður ekki betur séð en ákveðinn feginleika megi greina í skrifum blaðamanns Gaflara þegar hann segir: „Oftar en ekki bar nafn Hafnarfjarðar á góma í fréttum tengdum vélhjólagengjunum, nú heyrast hins vegar færri slíkar fréttir í fjölmiðlum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×