Innlent

Velta fyrir sér lögmæti sprenginganna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Íbúar svæðisins hafa lýst yfir áhyggjum sínum um skemmdir á húsnæði.
Íbúar svæðisins hafa lýst yfir áhyggjum sínum um skemmdir á húsnæði. mynd/samsett
Íbúasamtök Vesturbæjar hafa boðað til fundar vegna framkvæmda við gamla Lýsisreitinn í Vesturbæ Reykjavíkur.

Fundurinn verður með íbúum svæðisins en einnig hafa verið boðaðir fulltrúar frá tryggingarfélaginu VÍS, Verkkaupa, Verktaka og fulltrúar frá Reykjavíkurborg.

Íbúar svæðisins hafa lýst yfir áhyggjum sínum um skemmdir á húsnæði en unnið er að því að sprengja upp klöpp á reitnum með tilheyrandi ónæði fyrir íbúa á svæðinu. Sprengt er frá morgni til kvölds.

Reisa á um 500 manna byggð á gamla Lýsisreitnum og þarf að sprengja tvisvar til fimm sinnum á dag til að hægt sé að fjarlægja jarðveg. Byggðin á reitnum er umdeild og framkvæmdirnar fara einnig illa í íbúa í grennd við framkvæmdarsvæðið.

Fundurinn fer fram í sal við Aflagranda 40 klukkan fjögur í dag.

Ný 500 manna byggð mun rísa á gamla Lýsisreitnum í Vesturbæ Reykjavíkur.
„Við í íbúasamtökum Vesturbæjar höfum áhuga á því aðstoða íbúa á svæðinu sem hafa miklar áhyggjur af stöðu mála,“ segir Birgir Þröstur Jóhannsson, arkitekt og formaður íbúasamtaka Vesturbæinga.

„Íbúar eru mjög óánægðir með sprengingar á svæðinu og hafa orðið fyrir töluverðu ónæði. Húsin eru að hristast mikið og fólk veit í raun aldrei hvenær sprengingarnar eiga sér stað. Í hverfinu er mikið um fólk með smábörn og aðilar sem starfa að heiman.“

Birgir segir að íbúar við Lýsisreitinn hafi ítrekað upplifað að hlutir hafi verið að hrynja úr hillum og óttast þeir einnig að húsnæði þeirra séu einfaldlega að verða fyrir skemmdum í framkvæmdunum.

„Við héldum fund í síðustu viku með þeim aðilum sem standa að sprengingunum og það kom lítið út úr þeim fundi. Því næst voru við beðin um að skipuleggja annan fund með aðilum frá borginni og tryggingarfélögum. Allir aðilar málsins hafa boðað komu sína.“

„Fyrst og fremst vilja íbúar vita hvort þessar framkvæmdir séu yfirleitt löglegar. Það er spurning hvort það sé leyfilegt að valda skemmdum á húsnæði  þrátt fyrir að byggingarleyfi liggi fyrir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×