Innlent

Hefur ekki íhugað að víkja tímabundið útaf lekamálinu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segist ekki hafa íhugað að víkja tímabundið úr embætti á meðan lögreglan rannsakar meintan leka á trúnaðarupplýsingum hælisleitanda til fjölmiðla.

Ríkissaksóknari hefur ákveðið að vísa kæru vegna málsins til lögreglunnar.

„Líkt og ég hef ítrekað sagt þá fagna ég því að þetta mál verði skoðað til hlítar. Við höfum sjálf óskað eftir ítarlegri athugun á málinu en við getum framkvæmt í ráðuneytinu. Við höfum skoðað það ítrekað þar. Það er ekkert sem við finnum þar sem bendir til þess að trúnaðargögn hafi farið úr ráðuneytinu. En séu enn uppi um þetta efasemdir þá er mikilvægt að þetta sé skoðað til hlítar. Það er mikilvægt fyrir ráðuneytið og þess vegna fagna ég þessari málsmeðferð ríkissaksóknara,“ segir Hanna Birna.

Hún segist ekki hafa íhugað að víkja tímabundið úr embætti á meðan málið er til rannsóknar.

„Þessi kæra hælisleitandans beinist ekki að mér persónulega. Hún beinist að ráðuneytinu og í landinu er fullur aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdavalds. Ég veit að almenningur getur treyst því að ríkissaksóknari og lögregla vinni málefnalega og faglega að þessu máli eins og öðrum þótt það beinist að innanríkisráðuneytinu eða undirstofnunum þess,“ segir Hanna Birna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.