Erlent

Kaþólskur prestur í Noregi dæmdur fyrir samræði við 15 ára stúlku

Þorgils Jónsson skrifar
Brot prestsins áttu sér stað í Bergen í Noregi.
Brot prestsins áttu sér stað í Bergen í Noregi. Mynd/Björgólfur Hávarðsson
Kaþólskur prestur á fertugsaldri var í gær dæmdur í sex mánaða fangelsi, þar af fimm skilorðsbundna, fyrir dómi í Bergen í Noregi, fyrir að hafa haft mök við fimmtán ára stúlku.

Í frétt á vef Aftenposten segir að skilorðsbinding refsingarinnar sé óhefðbundin og presturinn hafi því sloppið betur en margir fyrir sinn glæp.

Presturinn átti í kynferðislegu sambandi við stúlkuna um nokkurra vikna skeið í sumar, en samband þeirra komst upp þegar stúlkan sagði frá því við skriftir. Brotin áttu sér stað á bústað pretsins þar sem hann var við störf í Bergen, en hann þjónaði við kirkju í Osló. Þar var hann virkur í ungmennastarfi og sá meðal annars um fermingarfræðslu.

Kirkjan kærði málið til lögreglu, en fram kom í dómnum að hvorki stúlkan né foreldrar hennar hafi viljað kæra.

„Mér finnst hann ekki hafa gert neitt rangt og þess vegna á ekki að dæma hann", sagði stúlkan fyrir dómi á þriðjudag.

Presturinn sagðist sjálfur afar leiður yfir því sem hafði gerst. „En um leið er hún ást lífs míns, ég vissi ekki að löglegur samræðisaldur í Noregi væri sextán ár. Í mínu heimalandi, Þýskalandi, er kveðið á um fjórtán ár og það sama á við um Austurríki þar sem ég bjó í mörg ár."

Saksóknari krafðist þess að einungis einn mánuður yrði skilorðsbundinn, en varð ekki að þeirri ósk.

Í dóminum er tekið fram að sambandið milli prestsins og stúlkunnar hafi verið ástarsamband. Ekki sé að sjá að presturinn hafi notfært sér aldursmun eða stöðu sína. Hann hafi ekki einn haft frumkvæðið að sambandinu og ekkert bendi til þess að um nauðung hafi verið að ræða.

Fleira var metið prestinum til refsilækkunar, meðal annars að hann hafi gengist við öllu, enda eru vitnisburðir hans og stúlkunnar einu sönnunargögnin í málinu, auk þess sem hann hafi mist stöðu sína vegna málsins og fái vart vinnu sem prestur eftir þetta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×