Erlent

Furða sig á fréttum um framhjáhald

Birta Björnsdóttir skrifar
Francois Hollande, forseti Frakklands, íhugar nú málsókn á hendur tímaritinu Closer, eftir að blaðið birti ítarlega úttekt á meintu sambandi hins lofaða forseta og leikkonunnar Julie Gayet.

Holland  hefur ekki neitað sögusögnunum opinberlega, en sagði í samtali við AFP fréttastofuna að hann, líkt og aðrir, ætti rétt á sínu einkalífi.

Öll umfjöllun um málið var fjarlægð af heimasíðu tímaritsins, að beiðni leikkonunnar, nú fyrir helgi en tímaritið er enn aðgengilegt á sölustöðum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fjallað er um einkalíf forsetans, en hann skildi við barnsmóður sína og samstarfskonu, Segolene Royal og tók saman við unnustu sína, blaðakonuna Valerie Trierweiler.

Frakkar virðast þó lítið kippa sér upp við sögusagnirnar, og segja að engum komi við hvað forsetinn geri í sínum frítíma, líkt og sjá má í myndskeið með frétt.

Í Frakklandi eru í gildi lög um bann á umfjöllun á persónulegum málefnum fólks, ef samþykki viðkomandi er ekki fyrir hendi. Tímaritið Closer hefur verið á gráu svæði hvað löggjöfina varðar og skemmst er að minnast lögsóknar bresku konungsfjölskyldunnar á hendur blaðinu eftir að þar birtust ljósmyndir af Kate Middleton, hertogaynjuni af Cambride, í sólbaði í sundbuxum einum fata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×