Erlent

Vilja afnema guðlast úr hegningarlögum

Þorgils Jónsson skrifar
Háværar raddir voru uppi um meint guðlast þegar Jótlandspósturinn birti skopmyndir af Múhameð spámanni. Nú er kominn pólitískur meirihluti í Danmörku fyrir að afnema ákvæði um slíkt úr hegningarlögum.
Háværar raddir voru uppi um meint guðlast þegar Jótlandspósturinn birti skopmyndir af Múhameð spámanni. Nú er kominn pólitískur meirihluti í Danmörku fyrir að afnema ákvæði um slíkt úr hegningarlögum. NORDICPHOTOS/AFP
Meirihluti danskra þingmanna er tilbúinn til þess að slá út úr lögum bann gegn guðlasti. Þetta kemur fram í frétt Politiken, en þar segir jafnframt að ekki hafi verið dæmt eftir lögunum frá árinu 1946.

Þá fékk kærustupar eitt sekt fyrir að hafa mætt á grímuball í prestsklæðum og „skírt" leikfangabrúðu, en refsiramminn er allt að fjögurra mánaða fangelsi.

Árið 2012 mælti Mannréttindastofnun Danmerkur með því að ákvæðið um guðlast yrði fellt úr gildi en nú er þess beðið að sérfræðinefnd um hegningalög gefi frá sér álit um málið. Það mun vart gerast fyrr en að ári, sökum anna hjá nefndinni. Hins vegar hafa flestir flokkanna á þingi lýst því yfir að þeir séu fylgjandi slíku.

Auk fyrrnefnds dæmis var DR, danska ríkisútvarpið, árið 1971 ákært á grundvelli guðlastslaganna eftir að söngkonan Trille hafði sungið lag þar sem textinn fjallaði meðal annars um óhefta kynhvöt Guðs.

DR var sýknað, og síðan hefur enginn verið ákærður í slíkum málum, en nokkrir hafa þó verið kærðir til lögreglu, þar á meðal kjörbúð sem auglýsti sandala með myndum af Maríu mey og Júdasi og auk þess var birting Jótlandspóstsins á skopmyndum af Múhameð spámanni einnig kærð án þess að málin kæmu til kasta dómstóla.

Manu Sareen, kirkjumálaráðherra Dana, léði nýlega máls á því í fella ákvæðið um guðlast úr lögum og Marianne Jelved menningarráðherra segir í pistli sem hún skrifar ásamt þingflokksformanni Róttækra í Politiken í dag að tillitsemi við trúarskoðanir ætti ekki að vera tjáningarfrelsinu yfirsterkari.

Greinarhöfundar segja meðal annars að rétt sé „að gagnrýna trú þegar trúin til dæmis leyfir kúgun - þegar imam predikerar að staður konunnar sé inni á heimilum, eða þegar Vatíkanið predikerar andstöðu við noptkun smokka til að berjast gegn útbreiðslu alnæmis."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×