Innlent

Ellefu sæmdir heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Ellefu Íslendingar voru sæmdir heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu,.
Ellefu Íslendingar voru sæmdir heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu,. mynd/Daníel Rúnarsson
Ellefu Íslendingar voru sæmdir heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag, nýársdag. Það var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sem afhenti orðurnar.

Alfreð Gíslason, handknattleiksþjálfari í Þýskalandi, fékk riddarakross fyrir framlag til íþrótta. Ingileif Jónsdóttir, prófessor í Reykjavík, fékk riddarakross fyrir kennslu og rannsóknir á sviði ofnæmisfræða.

Fyrir framlag til íslenskrar leiklistar fékk Ingvar E. Sigurðsson leikari riddarakross og Kolbrún Björgólfsdóttir myndlistamaður fékk riddarakross fyrir framlag til íslenskrar myndlistar. Þá fékk Magnús Eiríksson tónlistarmaður riddarakross fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar og Ólafur B. Thors, fyrrverandi framkvæmdarstjóri fékk krossinn fyrir framlag til menningar og þjóðlífs.

Smári Geirsson, framhaldsskólakennari og rithöfundur fékk riddarakross fyrir framlag til sögu og framfara á Austurlandi og Soffía Vagnsdóttir skólastjóri í Bolungarvík fékk riddarakross fyrir framlag til félagsmála og menningar í heimabyggð.

Lögreglustjórinn Stefán Eiríksson fékk riddarakross fyrir frumkvæði og forystu á sviði löggæslu og Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð fékk krossinn fyrir störf í sveitarstjórnarmálum. Þá fékk Unnur Kolbrún Karlsdóttir, formaður líknar- og vinafélagsins Bergmáls, riddarakross fyrir framlag til mannúðarmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×