Innlent

Fyrrverandi hermaður sá fyrsti til að kaupa löglegt marijúana

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Langar raðir mynduðust við verslanir í Denver í Colorado-ríki í gær þegar sala á löglegu marijúana hófst. Colorado er fyrsta ríkið í Bandaríkjunum til að lögleiða sölu á marijúana til afþreyingar. 

Nokkrir þeirra einstaklinga sem biðu í röðum í gær höfðu lagt á sig talsvert ferðalag til að geta keypt sér maijúana með löglegum hætti. Allir þeir sem hafa náð 21 árs aldri geta nú keypt sér marijúana kjósi þeir að gera svo.

Sean Azzariti, fyrrverandi hermaður í Írak, var sá fyrsti til að kaupa marijúna með löglegum hætti í Bandaríkjunum og ætlar hann að nota efnið til að takast á við kvíðaröskun sem hefur aftrað hann í daglegu lífi frá því að hann snéri heim úr herþjónustu.

„Þetta er mikill heiður og er himinlifandi. Þetta er stórt skref og gæti verið fordæmi fyrir önnur ríki. Ég veit ekki hvort að ég muni nokkurn tímann reykja þetta. Þetta gæti allt eins farið upp á vegg heima hjá mér,“ sagði Azzariti eftir að hafa keypt um 20 grömm af marijúana.

Skilar tekjum í ríkissjóð

Aðeins eru tólf verslanir í Colorado þar sem hægt er að kaupa marijúna en þeim mun fjölga talsvert á næstu vikum. Ef marka má eftirspurnina á fyrsta söludegi þá gæti lögleiðingin skilað inn talsverðum tekjum í ríkissjóð Colorado.

Kannanir sýna jafnframt að meirihluti Bandaríkjamanna styður lögleiðingu kannabisefnum. Aukið frjálslyndi virðist vera gagnvart ávanabinandi efnum í Bandaríkjunum því lögum hefur einnig verið breytt í Washingon-ríki þar sem ekki er lengur brot á lögum að hafa marijúana í fórum sínum. Sala er hins vegar enn ólögleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×