Innlent

Verkfall prófessora: Línur ættu að skýrast í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rúnar Vilhjálmsson, formaður Félags prófessora.
Rúnar Vilhjálmsson, formaður Félags prófessora. Vísir/GVA
Samningafundur er í dag klukkan 15 í kjaradeilu prófessora við ríkisháskóla og ríkisins.

Rúnar Vilhjálmsson, formaður Félags prófessora, segist bjartsýnn fyrir fundinn og vonast til að línur skýrist á honum. Boðað hefur verið til verkfalls prófessora þann 1.-15. desember næstkomandi.

„Við bíðum eftir ákveðnum svörum og búumst við að fá þau í dag. Ég legg alla áherslu á að það verði gengið frá samningi áður en til verkfalls kemur og að báðir aðilar leggi sitt af mörkum. Það þarf þó auðvitað tvo til að semja,“ segir Rúnar.

Fundurinn er bókaður í tvo tíma en Rúnar segir prófessora tilbúna til að sitja lengur ef þess þarf. Aðspurður hvort hann búist við því að samið verði í dag segist Rúnar ekki viss um það:

„Ég skal ekki segja um það en það verður alveg ljóst í dag hvað mun standa eftir í samningaviðræðunum.“

Rúnar segir að á morgun sé bókaður fundur í stjórn Félags prófessora.

„Stjórnin þarf ásamt samninganefnd að samþykka samninginn og við munum fara yfir stöðuna ásamt stjórninni á morgun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×