Innlent

Dómsniðurstaða EFTA sigur fyrir WOW

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Lögmaður WOW air segir félagið vera í miklu betri stöðu núna en fyrir niðurstöðu EFTA-dómstólsins.
Lögmaður WOW air segir félagið vera í miklu betri stöðu núna en fyrir niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Fréttablaðið/Kristín María Sigþórsdóttir
EFTA-dómstóllinn staðfesti í gær heimild samkeppnisyfirvalda til að grípa til aðgerða í tilefni af samkeppnishindrunum sem leiða af úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum með skammtaðan afgreiðslutíma.

Aðdragandi málsins var sá að WOW air kvartaði til Samkeppniseftirlitsins yfir fyrirkomulagi við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli. Athugun Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós að fyrirkomulagið hafði skaðleg áhrif á samkeppni og hindraði komu nýrra aðila inn á markaðinn fyrir áætlunarflug frá Íslandi. Málinu var áfrýjað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem komst að öndverðri niðurstöðu og endaði málið því hjá dómstólum. Héraðsdómur ákvað að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og ákvað dómstóllinn að málið sætti flýtimeðferð.

Páll Rúnar M. Kristjánsson
Í dómi EFTA er staðfest að samkeppnisyfirvöld geta haft afskipti af samkeppnishindrunum sem leiða af úthlutun afgreiðslutíma. Því er slegið föstu að svonefndur hefðarréttur á afgreiðslutímum komi ekki í veg fyrir íhlutun samkeppnisyfirvalda. Á grundvelli hefðarréttar hafa flugfélög sem áður nutu mikilla forréttinda ráðið yfir mikilvægustu afgreiðslutímunum.

„Þetta er stór sigur fyrir WOW air. EFTA-dómstóllinn er skýr, Samkeppniseftirlitið hefur ótakmarkaðar almennar heimildir til íhlutunar gagnvart Icelandair vegna þessara afgreiðslutíma. Það þýðir að WOW er í miklu betri stöðu núna en fyrir niðurstöðuna,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður WOW air.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×