Innlent

Rekstur dagforeldris rjúkandi rúst eftir tilhæfulausan grun um ofbeldi

Jakob Bjarnar skrifar
Börnin nutu vafans, og er málinu lokið hvað Hafnarfjarðarbæ varðar en eftir stendur að reksturinn er rjúkandi rúst.
Börnin nutu vafans, og er málinu lokið hvað Hafnarfjarðarbæ varðar en eftir stendur að reksturinn er rjúkandi rúst.
Í kjölfar þess að mar fannst á barni sem var í gæslu dagforeldris í Hafnarfirði, sem ekki vill láta nafns síns getið, voru öll börn tekin úr gæslu þess. Eftir rannsókn Barnaverndarnefndar kom í ljós að barnið hafði ekki hlotið mar vegna harðræðis hjá dagforeldrinu og var málið látið niður falla. Eftir situr dagforeldrið hins vegar með sárt ennið og reksturinn rjúkandi rúst, foreldrar treysta því ekki og börnunum var fundið pláss á leikskólum bæjarins.

Fjölmiðillinn Gaflari.is greinir ítarlega frá málinu; eftir sjö ára flekklausan feril situr dagforeldri uppi án barna eftir að þau voru tekin fyrirvarlaust úr umsjón þess. „Eftir að barnið var sótt á föstudegi fannst mar á því,“ hefur Gaflari eftir viðkomandi: „Barnið var 10 mánaða og farið að standa upp og ganga meðfram en ég varð ekki vör við að neitt óvenjulegt kæmi fyrir það á meðan það var hjá mér.“ Foreldrarnir ákváðu hins vegar að fara með barnið til læknis og í kjölfarið var barnaverndarnefnd tilkynnt um málið.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, segir að börnin hafi notið vafans á meðan könnuninni stóð. Þegar Gaflari spurði Steinunni hvort eðlilegt geti talist að dagforeldrið sé æru- og atvinnulaust í kjölfar skoðunar hjá Barnarverndarnefnd, sem gerði svo enga athugasemd við störf þess segir hún: “Málinu er lokið af okkar hálfu. Börnunum var komið fyrir á leikskólum vegna þess að fyrir lá að dagforeldrið væri að hætta á næstu mánuðum en ekki vegna þess að það var brotlegt í starfi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×