Erlent

Opið bréf Dylan Farrow vekur heimsathygli

Birta Björnsdóttir skrifar

Opið bréf Dylan Farrow, sem birtist á vef The New York Times í gærkvöldi, hefur vakið mikið umtal. Þar lýsir Dylan misnotkun af hálfu föður síns sem hafi staðið yfir þangað til hún var sjö ára gömul, en faðir hennar er kvikmyndaleiksjórinn Woody Allen.



Dylan hefur ekki tjáð sig opinberlega um ásakanirnar fyrr en málið komst fyrst í hámæli árið 1992 þegar hún lagði fram kæru á hendur föður sínum.



Málið á hendur Allen var látið niður falla eftir að hann stóðst lygapróf, auk þess sem sönnunarbyrgðin þótti ekki nægjanleg. Hann hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu og segir málið runnið undan rifjum barnsmóður sinnar, Miu Farrow. Þau skildu þegar upp komst um ástarsamband Allens og stjúpdóttur Farrow, Soon-Yi.



Kveikjan af því að málið kemst nú í hámæli á ný er að Woody Allen var heiðraður fyrir æviframlag sitt til kvikmynda á nýafstaðinni Golden Globe verðlaunahátíð auk þess sem hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir nýjustu mynd sína. Dylan segir þá virðingu sem Allen njóti í kvikmyndaheiminum lýsandi dæmi fyrir það hvernig samfélagið bregðist ítrekað fórnarlömbum kynferðisofbeldis.



Sonur Allens, Ronan, tók í sama streng og systir sín og tjáði sig opinskátt á samfélagsmiðlum um verðlaunaveitinguna.



Í lok greinarinnar biður Dylan lesandann að ímynda sér föður sinn misnota sjö ára barn og heiminn í kjölfarið hampa ofbeldismanninum. Hún spyr svo í  kjölfarið, hver er nú uppáhalds Woody Allen myndin þín?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×