Innlent

Borgar tvöfalt í hjartanu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Gísli á fimm börn og eitt barnabarn. Hann hélt hann væri kominn í jólafrí í vikunni en fékk boð um að fara út til Ghana aftur fram að jólum.
Gísli á fimm börn og eitt barnabarn. Hann hélt hann væri kominn í jólafrí í vikunni en fékk boð um að fara út til Ghana aftur fram að jólum. vísir/vilhelm
Gísli er í stuttu stoppi á Íslandi. Hann hélt að hann væri kominn í jólafrí en fékk svo boð um að fara út til Gana aftur en þaðan er hjálparstarfinu í Líberíu, Síerra Leóne og Gíneu stýrt. Hann kemur aftur heim seinnipartinn á Þorláksmessu en segist ekkert velta sér upp úr því enda vanur útköllum allt árið um kring og virðist taka því með miklu æðruleysi. Síðustu fjögur árin hefur Gísli starfað fyrir samtök sem heita NetHope. Þau einbeita sér að tækni- og upplýsingamálum í neyðaraðstoð og þjónusta 42 hjálparsamtök með 200 þúsund starfsmenn víðs vegar um heiminn.

„Þegar það verða hörmungar í heiminum þar sem þörf er á að bæta upplýsingaflæði og samskipti þá komum við og styðjum við bakið á okkar meðlimum. Ég fer oftast á sjálft svæðið og stjórna öllum aðgerðum sem tengjast þessum málum,“ útskýrir Gísli, sem hefur síðastliðna mánuði starfað meira og minna í Vestur-Afríku. „Ebólan hefur grasserað á mjög dreifðum svæðum og því er mikilvægt að bæta upplýsingaflæðið þaðan.“

Gísli segir útnefningu Time vera mikla viðurkenningu fyrir starfið sem er unnið en fjórir aðrir Íslendingar eru einnig útnefndir ásamt hjálparstarfsmönnum víða að úr heiminum. „Hin fjögur starfa mun meira í eldlínunni en ég. Ég er meira í baklandinu að hjálpa til með að samhæfa aðgerðir en þau hafa verið með sjúklinga í höndunum og leggja líf sitt í hættu. Okkur í baklandinu finnst svakalegur heiður að geta stutt við fólkið í framlínunni.“

Bannað að takast í hendur

Gísli var fyrst beðinn um að fara til Líberíu á vegum Bandaríkjastjórnar til að gera úttekt á fjarskiptamálum þar. Hann dvaldi í höfuðborginni þar sem ebólan hefur verið að gjósa upp í fátækrahverfunum og útbreiðslan því afar hröð.

„Líkurnar á að smitast eru samt ekki sérlega miklar. En vandamálið úti er að fyrst eftir að fólk veikist þá er fjölskyldan að hjúkra því. Fólki fer að blæða, er með uppköst eða niðurgang og smitleiðin er í gegnum líkamsvessa. En helsta smitleiðin er þegar aðstandendur þrífa lík ástvina sinna, en það tíðkast að gera áður en þau eru grafin. Þá eru líkamsvessar að koma út og smithætta mikil.“

Gísli hefur aldrei óttast að smitast enda passar hann sig vel. Hjálparstarfsmönnum er bannað að takast í hendur og allir eru duglegir að nota handsprittið.

„Í rauninni er þessi vírus auðdrepanlegur fyrir utan líkamann, til dæmis dugar klórvatn til að drepa hann. En eins og í Líberíu var 51 læknir fyrir fjórar milljónir manna og það voru fjórir sjúkrabílar. Heilbrigðiskerfið er bara á núlli og þar af leiðandi þarf svo lítið til að hlutirnir nái að fara út um allt. En reynt er að takmarka ferðalög fólks og í sumum þorpum er fólk orðið mjög meðvitað og segir ferðalöngum sem ekki eiga heima á svæðinu að fara burt. Fólkið sjálft er besta vörnin og þar sem samfélagið tekur að sér að setja aðstandendur sjúklinga í sóttkví, hugsa um að gefa þeim að borða og halda þeim frá öðrum í 21 dag, þar hefur gengið best að útrýma ebólunni.“

Árið 2010 stjórnaði Gísli Íslensku alþjóðasveitinni á Haíti eftir jarðskjálftana þar og var hún fyrst á vettvang.
Forritarinn sem hleypur á fjöll

Störf Gísla snúast um tæknimál og hjálparstarf en það eru hans tvær helstu ástríður í lífinu. „Ég byrjaði að forrita tólf ára gamall, seldi mitt fyrsta forrit 14 ára og hef starfað í tæknigeiranum síðan. Svo fyrir rúmum tuttugu árum byrjaði ég sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Þaðan fór ég í björgunarsveit í Hafnarfirði og fann mig mjög vel í því. Þessi störf voru ólík forrituninni og ég fékk útrás fyrir að hjálpa öðrum. Ég fann að það var mér mjög mikilvægt að gefa af mér.“ 

Gísli tók þátt í fjölmörgum leitum og var mikið í því að hlaupa upp á fjöll. „En ég uppgötvaði fljótt að ég væri ekki fljótastur að hlaupa upp fjöllin en góður í að segja öðrum hvar þeir ættu að hlaupa upp á fjöll,“ segir Gísli hlæjandi og bætir við að þá hafi hæfileikar hans til að skipuleggja og samhæfa komið fram.

Næsta skref var að fara í svæðisstjórn á höfuðborgarsvæðinu og svo landsstjórn björgunarsveitanna. Þannig að hann vann við tölvuna allan daginn en hoppaði svo út hvenær sem kallið kom. „Fjölskyldan vandist því að maður svæfi með símann á náttborðinu.“ 

Gísla var svo boðið að vera þátttakandi í sérstöku neyðarteymi sem Sameinuðu þjóðirnar eru með en það er samansett af neyðarstjórnendum hvaðanæva úr heiminum sem geta farið með mjög stuttum fyrirvara út í heim. Í kjölfarið varð hann einn af stjórnendum Íslensku alþjóðasveitarinnar. Það skal tekið fram að öll þessi vinna var unnin í sjálfboðaliðastarfi. 

„Árið 2007 ákvað Microsoft að setja upp hóp hjá sér í tengslum við náttúruhamfarir og búa til stöðu sem gekk út á að vera ráðgjafi gagnvart alþjóðasamtökum og ríkisstjórnum um hvernig hægt væri að nýta tæknina betur í tengslum við náttúruhamfarir. Þetta var mitt draumastarf þannig að síðastliðin ár hef ég fengið borgað fyrir að sameina þessar tvær ástríður mínar í starfi. Mér finnst ég ekki vera að vinna. Ég vinn við að gefa af mér.“ 

Harðjaxlar með tárin í augunum

Gísli hélt samt áfram í sjálfboðavinnunni og árið 2010 stjórnaði Gísli Íslensku alþjóðasveitinni á Haíti. „Það var mikil lífsreynsla. Við vorum fyrst á vettvang og sáum hluti sem munu aldrei gleymast. Ég er stoltastur af því að við komum öll 35 til baka, heil á líkama og sál,“ segir Gísli og útskýrir að allir björgunarsveitarmenn séu í stífu ferli á meðan á björgunarstörfum stendur og eftir þann tíma til að huga að andlegu heilsunni. 

„Þessi andlegi þáttur skiptir rosalegu máli. Það skiptir engu hversu töff eða mikill harðjaxl þú ert, það hefur allt áhrif á þig. Um leið og það hættir að hafa áhrif á þig þá þarf maður að byrja að hafa áhyggjur. Fyrsta daginn okkar á Haítí björguðum við ungri konu úr rústunum og það tók okkur átta daga. CNN tók það allt saman upp. Síðan ári seinna höfðu þeir uppi á þessari konu og báðu okkur um að vera í beinu Skype-sambandi við hana. Þarna vorum við 35 harðjaxlar samankomnir og það grét hver einasti maður. Það eru mjög miklar tilfinningar þarna og mikilvægt að viðurkenna það.“ 

Staða Gísla var lögð niður hjá Microsoft í skipulagsbreytingum. Þá var honum boðið að fara til Seattle að starfa við vöruþróun og hugbúnaðarhönnun. Á sama tíma leitaði NetHope til hans og bað hann um að hefja störf hjá sér. „Mig langaði að tengja áfram þessar tvær ástríður saman þannig að það var auðveld ákvörðun að velja hvort starfið ég tæki. Því þótt launin væru helmingi lægri hjá NetHope þá borgar það tvöfalt í hjartanu. Starf mitt þar gefur mér möguleika á að hafa áhrif á heimsvísu hvernig tæknin er nýtt við neyðaraðstoð. Maður eyðir aukapeningum hvort eð er bara í vitleysu.“ 

Gísli á vettvangi í Japan árið 2011 eftir Tsunami flóðbylgjuna en hann er vanur að vera með þeim fyrstu á hörmungasvæði.
Hamfarasvæðum fjölgar 

Síðustu fjögur ár hefur Gísli farið á öll helstu hamfarasvæðin í heiminum og þau eru aldeilis ekki fá. „Það er nóg af hamförum og þær eru ekkert að minnka. Menn geta rifist um hvort það sé hlýnun jarðar sem veldur en það er ekki spurning að það er meira um veðurtengdar hamfarir. Allt verður stærra, öflugra og kröftugra. Einnig hafa miklir fólksflutningar haft sín áhrif. Nú eru borgir stærri og ef fellibylur eða jarðskjálfti dynur yfir þá verða svo miklu fleiri fyrir því. Fólk býr einnig við mjög slæmar aðstæður, í fátækrahverfum í óöruggum húsakosti.“

Gísli tekur dæmi um Katmandú í Nepal. Þar verða jarðskjálftar á sjötíu ára fresti en nú eru liðin áttatíu ár þannig að von er á skjálfta á hverri stundu. Misgengið liggur í gegnum borgina þar sem nú búa tvær milljónir manna. Síðast þegar skjálfti reið yfir bjuggu hundrað þúsund manns í borginni og um tvö þúsund manns létu lífið. 

„Þegar hamfaraviðbragðskerfið var búið til var reiknað með tvennum stórum hamförum á sama tíma á ári og í mesta lagi þrennum stórum hamförum á ári. Í dag eru fimm hamfarir í gangi í einu. Ebólan, sem er í raun þrjú verkefni því hún er í þremur löndum, Sýrland, Malí, Mið-Afríkulýðveldið og Írak. Kollegar mínir hafa einmitt haft orð á því að þeir hafi aldrei verið jafn mikið frá fjölskyldunni og undanfarið ár.“

Hvenær kemur pabbi í heimsókn?

Gísli á fimm börn og eitt barnabarn. Hvernig gengur fjölskyldulífið með alla þessa fjarveru? „Ég er mjög vel giftur, það skiptir öllu máli að eiga góða að. Það að hoppa svona á milli landa og þurfa að vera tilbúinn að fara hvenær sem er, er náttúrulega mjög erfitt fyrir hinn aðilann.“

Undir lok viðtalsins hittir blaðamaður einmitt eiginkonu Gísla, Sonju Pétursdóttur, og spyr hana glettinn hvort það sé ekki svolítið þreytandi að hafa eiginmanninn alltaf á flakkinu. Hún gefur lítið fyrir það enda löngu búin að venjast ferðalögum Gísla. Hún bætir þó við í lokin að hún hafi fengið svolitlar áhyggjur þegar börnin spurðu hvenær pabbi kæmi næst í heimsókn. 

Gísla finnst mikilvægt að gefa af sér í lífinu og er þakklátur fyrir að hafa getað sameinað tvær ástríður sínar, tæknimál og hjálparstarf.
Breytir skelfingu í bros

Starfið hefur breytt lífssýn Gísla mikið og segir hann að brosið á fólkinu sem hann hjálpar fái hann til að sinna starfinu.

„Litlir hlutir geta gert svo mikið og breytt skelfingu í bros. Það er vítamínsprautan sem maður fær beint í hjartastað. Að sjá fólk við þessar aðstæður fékk mig líka til að fá aðra sýn á hrunið sem við gengum í gegnum hérna. Ég kallaði það núllstillinguna mína að fara til þróunarlandanna. Auðvitað eru erfiðleikar hér heima en á allt öðrum skala. Mér finnst við þurfa að vera svolítið þakklátari fyrir það sem við höfum og gefa meira af okkur. Þegar hrunið varð var ég á erlendum launum þannig að mín laun hækkuðu á meðan laun annarra lækkuðu. Þá ákváðum við að taka að okkur fleiri stuðningsbörn hjá ABC Barnahjálp því það voru svo margir að hætta sem stuðningsforeldrar. Við reyndum að bæta það upp og vorum með níu börn á tímabili. Ef launin hækkuðu meira þá bættum við barni við.“ 

Að bjarga heimi einnar manneskju

Það fer ekki fram hjá nokkrum manni að það er Gísla hugleikið að hjálpa öðrum. Næst talar hann lengi um allar leiðirnar sem fólk getur farið til að veita aðstoð. „Íslendingar eru reyndar duglegir að standa við bakið á fólki þegar það þarf á því að halda en það þarf oft að ýta við okkur. En þetta dregur fram það besta við okkur – krísur gera það. Það er bara svo ótrúlega auðvelt að hjálpa öðrum, það er eitthvað sem ég hef lært. Það er leiðin að því að vera ríkur. Maður verður alveg rosalega ríkur í hjartanu.“ 

En hvað með alla sem þið getið ekki hjálpað? Situr það ekki eftir? 

„Jú. En ég segi söguna um krossfiskana þegar ég er spurður að þessu. Það var maður sem sá í fjarska konu vera að dansa á ströndinni. Svo þegar hann gengur nær sér hann að hún er ekki að dansa heldur er ströndin uppfull af krossfiskum og hún beygir sig niður og hendir einum og einum krossfiski út í hafið aftur. Hann gefur sig á tal við konuna. „Mín kæra, af hverju ertu að þessu? Þetta er vonlaust verkefni. Það er endalaust af krossfiskum hérna. Þú munt aldrei ná að bjarga þeim öllum. Þetta hefur engin áhrif,“ segir hann við konuna. Konan beygir sig niður, nær í krossfisk, hendir honum út í sjó og segir: „Jú, fyrir þennan.“ Þetta er saga sem ég þurfti að tileinka mér. Maður getur ekki bjargað öllum en hver einasti sem þú hjálpar skiptir máli. Þetta mega Íslendingar hugsa um. Finndu einhvern í lífi þínu sem þú veist að á erfitt. Hjálpaðu honum fyrir jólin. Þú bjargar ekki heiminum en þú bjargar heimi þessarar manneskju fyrir jólin.“

Verkefni Gísla sem yfirmaður neyðarhjálpar hjá Nethope síðustu fjögur ár: 

Flóð í Pakistan

Gísli fór og gerði úttekt á því hvernig tölvutækni og fjarskipti voru notuð. Ferðin var mikil upplifun því fyrir utan mikil flóð var óöryggið mikið og Gísli ferðaðist undir lögregluvernd vegna hættu á að vera tekinn sem gísl.

Jarðskjálfti og flóðbylgja í Japan

Stórt verkefni en sérstakt á sinn hátt þar sem Sameinuðu þjóðirnar voru ekki virkar á svæðinu heldur var Gísli eingöngu í samstarfi við japönsk stjórnvöld og hjálparsamtök í landinu.

Þurrkar og hungursneyð í Austur-Afríku

Stærsta verkefnið var að bæta fjarskipti í stærstu flóttamannabúðum heims sem eru í Dadab í Norður-Kenýa. Þar búa fimm hundruð þúsund manns í tjaldbúðum í miðri eyðimörkinni og hafa verið þar frá 1991. Við þurrkana bættust við 300.000 manns á tveimur mánuðum.

Fellibylurinn Pablo á Filippseyjum

Fellibylurinn Hayan á Filippseyjum

Gísli eyddi góðum tíma í Filippseyjum eftir fellibylinn við að setja upp fjarskipti og samhæfa aðgerðir með Sameinuðu þjóðunum og öðrum viðbragðsaðilum.

Ebólan í Vestur-Afríku

Gísli hefur verið meira og minna í Afríku frá því í október.

Inn á milli hafa samtökin stutt við hjálparsamtök í smærri hamförum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×