Innlent

Sirkus Íslands um land allt í sumar

Birta Björnsdóttir skrifar
Sirkus Íslands verður á faraldsfæti í sumar og á ætlar eins og eins og svo margir með tjald í farteksinu. Þeirra tjald er þó aðeins frábrugðið hefðbundnum hýbílum á tjaldstæðum.

Sirkustjaldið er glænýtt og fréttastofa Stöðvar 2 fékk að fylgjast með þegar það var sett upp í fyrsta sinn. Liðsmenn Sirkus Íslands sáu sjálfir um það, en nutu liðsinnis starfsmanna Ikea, enda fáir flinkari en þeir þegar kemur að því að smíða saman úr mörgum smáhlutum.

„Þetta gekk mjög vel. Það lítur út fyrir að allir bútarnir hafi skilað sér til landsinsm," sagði Daníel Hauksson, sirkuslistamaður.

Sirkus Íslands ætlar að gera víðreist með tjaldið í sumar.

„Við byrjum í Reykjavík og förum svo á Ísafjörð, Akureyri, Selfoss og Reykjanesbæ," segir Þórdís Schram, sirkuslistamaður.

Daníel bætti við að það ekkert tiltökumál að koma tjaldinu á milli staða.

„Það fer bara í bútum inn í gáma, sem TVG Siemsen ferja fyrir okkur um landið," sagði hann.

Það verður því hálfgerð sirkuslest á ferð um landið í sumar. En sem fyrr sagði er tjaldið spánýtt. Sirkus Íslands fékk aðstoð frá vinum og velunurum þegar kom að því að safna fyrir tjaldinu.

„Við söfnuðum fyrir tjaldinu í gegnum Karolina Fund. Þannig fengum við peninga fyrir helmingnum, en hinn helminginn greiddum við sjálf,“ segir Þórdís.

Fyrsta sýning sumarsins fer fram á Klambratúni þann 25. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×