Innlent

„Kolgrafafjörður verður óbyggilegur ef síld drepst þar aftur“

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Kolgrafafjörður verður óbyggilegur ef síld drapst þar aftur í stórum stíl.“ Þetta segir bóndi á Eiði en hann og fleiri íbúar í og við Kolgrafafjörð krefjast þess nú að loka brúnni sem þverar fjörðinn. Annars sé ómögulegt að koma í veg fyrir frekari síldardauða.

Umfangsmiklar mælingar standa nú yfir í Kolgrafafirði þar sem áhrif þverunar fjarðarins eru rannsökuð. Íbúar á svæðinu hafa farið fram á við umhverfis- og auðlindaráðherra að firðinum verði lokað.

Alls drápust fimmtíu þúsund tonn af síld í desember og febrúar, af þeim voru tuttugu og fimm þúsund grafin í fjörunni við bæinn Eiði. Íbúar á svæðinu reyna nú að finna lausn svo að hægt sé að koma í veg fyrir að slíkur atburður eigi sér stað á ný. Sérstaklega er horft til brúarinnar sem þverar fjörðinn.

Umhverfisstofnun hefur birt drög að viðbragðsáætlun ef síldardauði á sér stað á ný í firðinum. Heimamenn ítreka að tímanum sé betur varið í fyrirbyggjandi lausnir

„Það er bara ein leið til að fyrirbyggja þetta,“ segir Bjarni Sigurbjörnsson, bóndi á Eiði í Kolgrafafirði. „Hún er að loka að brúnni. Þetta er örugglega mjög dýr framkvæmd en það er líka dýrt að láta síldina drepast. Það drepst mögulega mun meira en síðast og það er líkur á að það verði raunin, enda er súrefnið lítið í firðinum.“

„Ef þetta gerist aftur þá er vandamálið miklu stærra en síðast.“MYND/FRÉTTASTOFA
Samkvæmt áætlun Umhverfisstofnunar myndi urðun síldar, af svipuðu umfangi í desember og febrúar, kosta um milljarð króna og fara fram við Fíflholt.

Síldin lónir nú rétt fyrir utan fjörðinn. Bjarni segir það vera nauðsynlegt að loka brúnni, að minnsta kosti þangað til að vísindamenn hafa unnið sína vinnu í firðinum. Niðurstöður mælinga liggja fyrir á næsta ári.

„Það er umhverfisslys að loka ekki brúnni og það er sjálfsagt umhverfisslys að gera það.“

Mengunin er sannarlega til staðar í Kolgrafafirði. Enn er grútur víða og óþefur liggur yfir fjörunni. Þetta hvalhræ rak inn í lónið fyrir neðan Eiði í vikunni og liggur þar rotnandi í svarti eðju, hún ber vitni um þær þúsundir tonna sem grafin voru á svæðinu.

„Ef þetta gerist aftur þá er vandamálið miklu stærra en síðast. Fjörðurinn þolir ekki annað eins dráp. Fyrir utan að það verður gríðarlega dýrt að hreinsa og ef það verður ekki gert þá held ég að maður pakki bara saman. Mér líst mjög illa á þetta. Ég held að þetta verði til þess að svæðið verði óbyggilegt um einhvern tíma.“


Tengdar fréttir

Undarlegt ástand í Kolgrafafirði

Enn eitt náttúruundrið virðist vera í uppsiglingu í Kolgrafafirði. Þar eru nú saman komnar súlur í þúsunda tali og stinga sér svo þétt eftir ætinu, að margar vængbrotna í hamagangnum, og enginn veit af hverju síld er nú í firðinum.

Síldin mögulega komin í Kolgrafafjörð

Síld virðist vera farin að leita inn á Kolgrafafjörð á Snæfellsnesi og hafa háhyrningar sést þar á ferð innan við brúnna, sem er á þverun fjarðarins.

Heimamenn vilja útiloka síld frá Kolgrafafirði

Bæjarráð Grundarfjarðar skorar á Sigurð Inga Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, að leyfa lokun Kolgrafafjarðar án tafar vegna hættu á frekari síldardauða í firðinum.

Síld innan við brú í Kolgrafafirði

Síld er að öllum líkindum farin að ganga undir brúnna í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi eins og sést á meðfylgjandi myndbandi sem ljósmyndarinn Tómas Freyr Kristjánsson frá Grundarfirði gerði.

Mikið inngrip að loka Kolgrafafirði

Það er tæknilega mögulegt að loka Kolgrafafirði til að koma í veg fyrir síldargöngur inn í fjörðinn, en slík framkvæmd er hins vegar það mikið inngrip sem slík hún þyrfti að öllum líkindum að fara í umhverfismat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×