Enn eitt náttúruundrið virðist vera í uppsiglingu í Kolgrafafirði. Þar eru nú saman komnar súlur í þúsunda tali og stinga sér svo þétt eftir ætinu, að margar vængbrotna í hamagangnum, og enginn veit af hverju síld er nú í firðinum.
Súlugerið fór að þéttast í fyrradag og er mönnum ráðgáta hvernig á því stendur og það í þessu magni, því súlan á að vera sest upp við varp. Síldin inni á firðinum er ekki síður ráðgáta því hún ætti að vera komin úr vetrardvalanum og út í hafið í ætisleit. Þá virðast háhyrningarnir, sem hafa haldið sig á Grundarfiðri og utan við Kolgrafafjörð í síldarveislu síðustu vikurnar, vera horfnir, en þess í stað hafa smáhveli eins og hnýsur og höfrungar hópast á svæðið og þeir synda undir brúnna og alveg inn á fjörðinn, sem háyrningarnir gera ekki.
Bjarni Sveinbjörnsson bóndi á Eiði við fjörðinn, segir að þessa stundina sé mörgum spurningum ósvarað um ástandið í firðinum.
Undarlegt ástand í Kolgrafafirði
