Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir því svissneska í undankeppni HM í knattspyrnu á Laugardalsvelli á fimmtudagskvöldið.
Leikurinn verður sá fyrsti hjá stelpunum okkar undir stjórn Freys Alexanderssonar. Liðið æfir á Laugardalsvelli í dag og þá gefst blaðamönnum kostur á að hitta leikmenn og þjálfara og taka stöðuna.
Ljóst er að Svisslendingar mæta fullir sjálfstrausts á klakann eftir 9-0 sigur á Serbum í fyrsta leik þjóðanna í riðlinum. Danka Podovac, leikmaður Stjörnunnar og einn besti leikmaður Pepsi-deildar kvenna, er einmitt í landsliði Serba en Danka og félagar máttu sín lítils í Sviss.
Freyr sagði á blaðamannafundi á dögunum að styrkleiki Sviss væri klárlega í sóknarleiknum. Þar er liðið afar vel mannað og greinilegt að leikmenn liðsins klára færi sín ef marka má mörkin gegn Serbum.
Tveggja mínútna myndband með mörkunum níu má sjá hér.

