Erlent

Stjórnarandstaða Taílands hættir á þingi

Bjarki Ármannsson skrifar
Andstæðingar ríkisstjórnarinnar við Lýðræðistorgið í Bangkok.
Andstæðingar ríkisstjórnarinnar við Lýðræðistorgið í Bangkok. Fréttablaðið/AP
Demókrataflokkurinn, stærsti stjórnarandstöðuflokkur Taílands, sagði sig af þingi í gær. Þetta var gert til að mótmæla ríkisstjórn landsins sem flokkurinn telur ekki eiga rétt á sér.

Chavanond Intarakomalyasut, talsmaður Demókrataflokksins, segir almenning ekki lengur sætta sig við stjórnarfar í landinu og að demókratar geti ómögulega unnið með ríkisstjórninni. Demókratar eru nátengdir baráttumönnum sem hafa undanfarið staðið fyrir mestu mótmælum í landinu um árabil.

Mótmælin hafa staðið síðan í síðasta mánuði og beinast að Yingluck Shinawatra, forsætisráðherra Taílands, og ríkisstjórn hennar. Fara mótmælendur fram á að hún segi af sér og að í staðinn verði svokallað „þjóðarráð“ skipað án kosninga til þess að stjórna landinu. Demókratar hafa ekki sigrað í kosningum síðan 1992 og eru leiðtogar flokksins af mörgum taldir hafa gefist upp á því að reyna.

Shinawatra sagði í ræðu í gær að hún myndi „með glöðu geði“ segja af sér ef það yrði til þess að lægja öldurnar í landinu. Hún varaði hins vegar við því að ríkisstjórn sem kæmist til valda án kosninga myndi „hafa mikil áhrif á ímynd“ Taílands.

Að minnsta kosti fimm hafa látist í átökum síðustu vikur og hátt í þrjú hundruð manns særst. Í dag ætla mótmælendur að fara í fjölmenna göngu á götum Bangkok, sem margir óttast að geti endað með blóðsúthellingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×