Erlent

NSA braut ítrekað lög um persónuvernd

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Þjóðaröryggisstofnunin hefur orðið uppvís að því að njósna ólöglega um bandaríska borgara undanfarin fimm ár.
Þjóðaröryggisstofnunin hefur orðið uppvís að því að njósna ólöglega um bandaríska borgara undanfarin fimm ár. Fréttablaðið/AP
Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) hefur orðið uppvís að því að brjóta ítrekað lög um persónuvernd síðan bandaríska þingið úthlutaði stofnuninni víðtækari eftirlitsheimildum árið 2008.

Samkvæmt upplýsingum sem Edward Snowden sendi frá sér, og Washington Post hefur undir höndum, hefur öryggisstofnunin farið út fyrir lagalegar heimildir sínar mörg þúsund sinnum á ári í fimm ár.

Að sögn blaðsins snúast flest brotin um ólöglegar njósnir um Bandaríkjamenn eða erlenda aðila í Bandaríkjunum, sem voru taldir hryðjuverkamenn.

Í endurskoðendaskýrslu, sem kom út í maí síðastliðnum, kemur fram að 2.776 óheimilar njósnir öryggisstofnunarinnar hafi átt sér stað á einungis tólf mánuðum, en tekið er fram að um mistök hafi verið að ræða í flestum tilvikum.

Sem dæmi gerði forritunarvilla í tölvukerfi NSA það að verkum að stofnunin hleraði, fyrir mistök, innanlandssímtöl í stað símtala sem átti að hlera á milli Bandaríkjanna og Egyptalands.

Mannréttindasamtök í Bandaríkjunum hafa farið fram á að yfirmaður eftirlitstofnunar Bandaríkjanna, James Clapper, segi af sér þar sem brotið hefur verið á yfir þúsund saklausra manna, en eftirlitið ákvað að upplýsa ekki um njósnirnar.

Alvarlegustu brotin snúa að ólögmætri notkun gagna um yfir 3.000 Bandaríkjamenn og erlenda aðila sem búa í Bandaríkjunum og hafa græna kortið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×