Erlent

Sögusagnir um armbandstölvu

Þorgils Jónsson skrifar
Með enn eitt trompið uppi í erminni? Tim Cook, forstjóri Apple, kynnir nýja armbandsgræju til sögunnar á næstunni, ef eitthvað er að marka sögusagnir í tæknigeiranum vestra. Nordicphotos/AFP
Með enn eitt trompið uppi í erminni? Tim Cook, forstjóri Apple, kynnir nýja armbandsgræju til sögunnar á næstunni, ef eitthvað er að marka sögusagnir í tæknigeiranum vestra. Nordicphotos/AFP
Næsta vara sem tæknirisinn Apple sendir frá sér gæti verið armbandstölva á stærð við úr, ef eitthvað er að marka sögusagnir sem stórblöðin New York Times og Wall Street Journal sögðu frá um helgina.

Apple-úr, sem tæknibloggarar hafa þegar hafið að kalla iWatch, gæti meðal annars þjónað sem tenging við iPhone-snjallsíma og önnur tæki og sýnt kortaforritið Apple Maps, en fréttir herma að úrið muni keyra á iOS-stýrikerfi Apple og tækni sé nú þegar til staðar til að setja sveigjanlegan snertiskjá á armbönd.

Heimildarmenn blaðanna, sem vildu ekki koma fram undir nafni vegna ótta við að missa vinnuna, sögðu meðal annars að Apple hefði þegar rætt við íhlutaframleiðandann Foxconn í Kína um mögulega framleiðslu.

Tæknisérfræðingar sem New York Times talaði við eru á sama máli með að næsta bylting í tölvuefnum yrði sennilega tæki sem notendur myndu bera á sér, til dæmis armbönd eða gleraugu. Þá hefur Apple lengi spáð í lausnir í tengslum við sjónvarp og meira að segja stefndi Steve Jobs heitinn að því að byggja Apple-snjallbifreið en honum entist ekki ævin til þess.

Apple hefur stórgrætt á sölu á iPod, iPhone og iPad síðustu ár. Samkvæmt síðustu tölum liggur fyrirtækið nú á 137 milljörðum dala í sjóðum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×