Erlent

"Ég var sýknuð"

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Florence Cassez ræddi við fjölmiðla í gær ásamt lögfræðingi sínum og Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, sem er annar frá hægri á myndinni. 	nordicphotos/AFP
Florence Cassez ræddi við fjölmiðla í gær ásamt lögfræðingi sínum og Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, sem er annar frá hægri á myndinni. nordicphotos/AFP
„Ég var sýknuð," sagði Florence Cassez, frönsk kona sem setið hefur sjö ár í fangelsi í Mexíkó grunuð um aðild að mannráni. „Ég þjáðist sem fórnarlamb í meira en sjö ár."

Hún var látin laus eftir að hæstiréttur Mexíkó ógilti sextíu ára fangelsisdóm vegna alvarlegra galla á upphaflegu réttarhöldunum árið 2005.

Henni var fagnað sem þjóðhetju í Frakklandi þegar hún kom þangað í gær. Laurent Fabius utanríkisráðherra tók á móti henni og í dag er búist við að hún hitti François Hollande forseta.

Fórnarlömb mannránanna og aðstandendur þeirra í Mexíkó eru samt engan veginn sannfærð um sakleysi hennar.

„Við borguðum lausnargjaldið, en þau drápu hann samt," segir Michelle Valadez, sem segir að glæpagengi undir forystu þáverandi kærasta Cassez hafi rænt manni sínum og haldið honum í gíslingu í þrjá mánuði.

Cassez segist aðeins hafa búið á búgarði í Mexíkó með Israel Vallarta, hinum mexíkóska kærasta sínum, en ekkert vitað af því að gíslar væru hafðir þar í haldi.

Réttarhöldum yfir Vallarta er ekki lokið og óvíst hvaða áhrif niðurstaða hæstaréttar í máli Cassez hefur á þau réttarhöld. Hæstiréttur taldi ljóst að við upphaflegu réttarhöldin hefði með margvíslegum hætti verið brotið á mannréttindum Cassez, auk þess sem formgallar væru á réttarhöldunum sjálfum.

Meðal annars hefði lögregla farið með hana aftur á staðinn stuttu eftir að hún var handtekin í því skyni að sviðsetja handtökuna fyrir fjölmiðla.

„Ef hún hefði verið afhent dómsyfirvöldum og fengið samstundis aðstoð frá ræðismanni þá hefði ekki verið hægt að gera þessa sviðsetningu, og þá hefði málið litið allt öðruvísi út," segir Arturo Zaldivar, dómari í hæstarétti.

„Við munum aldrei komast að raun um hvort Florence er sek eða saklaus," segir Luiz GonzalezPlacencia, formaður mannréttindanefndar Mexíkóborgar. „En við vitum fyrir víst að ákveðnir einstaklingar hafa brotið gegn reglum um rétta málsmeðferð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×