Erlent

Hálf öld liðin frá morðinu á JFK

Ljósmyndin er tekin skömmu eftir að skotunum var hleypt af.
Ljósmyndin er tekin skömmu eftir að skotunum var hleypt af. Mynd/AP
Hálf öld er í dag liðin frá því er John F. Kennedy, þáverandi Bandaríkjaforseti var skotinn til bana í Dallas í Texas. Þessa sögulega atburðar verður minnst á marga vegu í dag. Kennedy er yfirleitt talinn á meðal vinsælustu forseta sögunnar í Bandaríkjunum þrátt fyrir að hann hafi aðeins náð að gegna embættinu í tæp þrjú ár.

Hans er minnst fyrir röggsama stjórn í Kúbudeilunni, framlag sitt til aukinna réttinda blökkumanna auk þess sem hann lagði mikla áherslu á geimferðaáætlun Bandaríkjamanna, sem síðar skilaði mönnum til tunglsins. Hann var þó einnig afar umdeildur maður, innrásin á Svínaflóa á Kúbu fór gjörsamlega út um þúfur auk þess sem einkalíf hans þykir ekki hafa verið til fyrirmyndar.

Lee Harvey Oswald er sagður morðingi forsetans en þrálátar samsæriskenningar hafa lifað góðu lífi alla tíð síðan sem eru á þá leið að fleiri hafi komið að morðinu á forsetanum og að Oswald hafi aðeins verið blóraböggull, eins og hann sagði raunar sjálfur rétt áður en Jack Ruby, bareigandi í Texas með tengsl við mafíuna, skaut hann til bana.

Nýleg Gallup könnun í Bandaríkjunum sýnir til dæmis að 61 prósent Bandaríkjamanna séu á þeirri skoðun í dag að Oswald hafi ekki verið einn að verki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×