Erlent

Kínverji þarf að rífa niður fjallstoppinn sinn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fjallstoppurinn á þakíbúðinni í Peking, sem auðkýfingurinn hefur dundað sér við að búa til.
Fjallstoppurinn á þakíbúðinni í Peking, sem auðkýfingurinn hefur dundað sér við að búa til. Mynd/AP
Kínversk stjórnvöld krefjast þess að auðkýfingur rífi niður þakíbúð sína, sem er ofan á hárri íbúðarblokk í Peking. Utan um íbúðina hefur hann búið til eins konar fjallstopp.

Stjórnvöld segja hann hafa brotið allar reglur þegar hann réðst í þessar framkvæmdir. Hann hefur fengið tveggja vikna frest til að rífa niður herlegheitin.

Aðrir íbúar blokkarinnar segjast hafa kvartað undan framkvæmdunum árum saman. Þeir segja lagnakerfi blokkarinnar liggja undir skemmdum og byggingin sjálf þoli ekki þungann. Einnig hefur verið kvartað undan hávaða sem berst frá tíðum veisluhöldum ofan af efstu hæðinni.

Aðrir íbúar blokkarinnar hafa kvartað árum saman.Mynd/AP
„Þau hafa unnið að þessum framkvæmdum árum saman. Venjulega standa þau í þessu að næturlagi,” hefur AP fréttastofan eftir einum íbúanna. Allar tilraunir til að koma vitinu fyrir eiganda þakíbúðarinnar hafa verið árangurslausar: „Hann var mjög hrokafullur. Hann lét sig kvartanir mínar engu varða.”

Eigandinn er forstjóri kínversks lyfjafyrirtækis. Hann sagðist ætla að verða við kröfum stjórnvalda, en gerði lítið úr fjallstoppnum sem hann hefur verið að dunda sér við að búa til árum saman. Þetta væri aðeins skrautgarður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×