Erlent

Viðræður á áætlun þrátt fyrir deilur um landtöku

Þorgils Jónsson skrifar
Landtaka Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum hefur valdið mikilli reiði meðal Palestínumanna.
Landtaka Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum hefur valdið mikilli reiði meðal Palestínumanna. NordicPhotos/AFP
Friðarsamningaviðræður milli Ísraels og Palestínu munu hefjast í fyrramálið eins og til stóð, eftir að ekkert hefur þokast í samkomulagsátt síðustu fimm ár. Ákvörðun Ísraels í gær um að heimila byggingu 3.100 íbúða á hernumdu svæðunum á Vesturbakka Jórdanar olli talsverðum úlfaþyt, en ekki viðræðuslitum. Ísraelsk stjórnvöld vörðu ákvörðun sína með þeim rökum að þau svæði sem um ræddi í þessu tilviki hefðu aldrei verið innifalin í mögulegu samkomulagi um skiptingu landsvæðis.

Viðræðurnar snúast um að ná lendingu um útfærslu hugmynda um sjálfstætt ríki Palestínu, en landtaka Ísraela setur strik í reikninginn þar sem Palestínumenn neituðu lengi að hitta Ísrael á meðan slíkt væri enn stundað.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafði þó milligöngu um samkomulag sem kveður á um að Ísrael sleppi 104 Palestínskum föngum.

Landtökufólki hefur fjölgað mjög á Vesturbakkanum síðustu ár. Árið 2010 voru þeir um 311.000 en um þessar mundir telja þeir um 367.000.

Saeb Erekat, aðalsamningamaður Palestínumanna, varaði Ísraela við að feta áfram þessa braut.

„Ef Ísraelsstjórn heldur að hún geti í hverri viku stigið yfir rauðu línurnar varðandi landtöku, þá eru þeir að boða það að samningaviðræðurnar geti ekki haldið áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×