Erlent

Hetjan á kúpunni

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Charles Ramsey, bjargvættur kvennanna þriggja sem haldið var nauðugum í húsi mannræningjans Ariels Castro í áratug, segir frægðina hafa eyðilagt líf sitt. Hann segist þó ekki vilja vera laus við hana.

„Ég fæ peninga að láni frá ættingjum,“ segir Ramsey og bætir því við að hann sé hættur að svara símanum þegar lánadrottnarnir hringi. Hann eigi enga peninga og sé ofan á það orðinn heimilislaus.

„Ég vil bara fá vinnu,“ segir Ramsey, en hann var rekinn að eigin sögn úr vinnu sinni í eldhúsi á veitingastað vegna þess að hann fékk ekki frið fyrir viðskiptavinum sem vildu koma og taka í höndina á honum.

Hann þvertekur fyrir það að hafa sólundað verðlaunafé sínu, en hann fékk 15 þúsund dollara úr söfnun á vegum einkaaðila. Sjálfur afþakkaði hann allt það verðlaunafé sem hann átti von á.

„Ég keypti bíl. Það var allt og sumt. Verðlaunaféð nemur örugglega milljónum og ég keypti bíl.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×