Feðgarnir unnu mikið björgunarafrek í mars fyrir tæpu ári þegar þeir björguðu Sigurði Smára Flosasyni sem sat fastur í bíl sem hafnað hafði í Laxá á Ásum. Hetjudáð þeirra feðga vakti mikla athygli og hefur sannarlega ekki gleymst.
Á vefsíðu Húnahorns segir að fjölmargar tilnefningar hafi borist en feðgarnir hafi fengið langflest atkvæði. Í umsögn um Kára og Pétur Arnar segir:
„Kári Kárason og Pétur Arnar Kárason unnu björgunarafrek í mars í fyrra þegar þeir sýndu mikið snarræði og björguðu manni sem sat fastur í bíl sem oltið hafði ofan í Laxá á Ásum. Þeir feðgar komu akandi eftir þjóðveginum þegar þeir sáu bíl sem koma akandi á móti þeim taka snögga beygju með þeim afleiðingum að hann endastakkst á bakkanum og lenti síðan úti í ánni á hvolfi. Kári hringdi strax á Neyðarlínuna og gaf þeim upp staðsetningu. Síðan tók sonur hans Pétur Arnar við símanum og sá hann um samskipti við Neyðarlínuna á meðan Kári reyndi að opna dyrnar á bílnum í ánni. Ekki var hægt að opna bílstjóramegin og þurfti Kári að fara lengra út í ána og tókst honum að opna farþegadyrnar. Maðurinn í bílnum var fastur í belti og gat Kári ekki losað það.
Þegar þarna var komið sögu var bíllinn hálffullur af vatni, hann var á hvolfi og ökumaðurinn því með höfuðið ofan í vatninu og að auki fastur í beltinu. Kári greip því til þess bragðs að lyfta höfðinu upp úr vatninu og stóð í ískaldri ánni uns hjálp barst. Pétur Arnar stöðvaði fyrsta bílinn sem koma akandi eftir veginum en í honum voru sjúkraflutningamenn og kom þeir feðgunum til aðstoðar við björgunina."
Fyrri verðlaunahafar

2012: Kári Kárason og Pétur Arnar Kárason
2011: Einar Óli Fossdal.
2010: Bóthildur Halldórsdóttir.
2009: Bóthildur Halldórsdóttir.
2008: Lárus Ægir Guðmundsson.
2007: Rúnar Þór Njálsson.
2006: Lárus B. Jónsson.
2005: Lárus B. Jónsson.