Franski varnarmaðurinn Eric Abidal hefur samið við Monaco til eins árs. Abidal fékk ekki nýjan samning hjá Barcelona.
Frá þessu er greint á heimasíðu félagsins en Abidal yfirgaf Monaco fyrir þrettán árum. Síðan þá hefur hann leikið með Lille, Lyon og Barcelona.
Abidal kvaddi stuðningsmenn Barcelona við hátíðlega athöfn í lok leiktíðar. Þá felldi hann tár á blaðamannafundi er tilkynnt var að hann hefði leikið sinn síðasta leik fyrir félagið. Frakkinn hefur spilað 61 landsleik fyrir Frakkland og í tvígang snúið aftur á knattspyrnuvöllinn eftir mikil vandræði með lifur sína.
Monaco er í eigu rússneska auðkýfingsins Dmitry Rybolovlev sem hefur farið mikinn á félagaskiptamarkaðnum. Kólumbíumaðurinn Radamel Falcao stendur upp úr en kaupverð hans frá Atletico Madrid er talið hafa numið rúmum 50 milljónum evra.
