Erlent

Braust inn á Facebooksíðu Zuckerberg

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Aðeins nokkrar mínútur liðu frá því að hakkarinn hafði komist inn á síðu Zuckerberg þar til Facebook hafði samband við hann.
Aðeins nokkrar mínútur liðu frá því að hakkarinn hafði komist inn á síðu Zuckerberg þar til Facebook hafði samband við hann. mynd/365
Palentískur hakkari sem gengur undir nafninu Khalil hakkaði sig inn á vegg Facebook síðu Mark Zuckerberg, forstjóra og stofnanda Facebook. Áður hafði hann tilkynnt fyrirtækinu um galla sem gerði honum kleift að setja inn skilaboð á læstar Facebook síður. Þetta kemur fram í frétt hjá Gizmodo.com.

Khalil sagði frá því á síðunni sinni að hann hefði sent tilkynningu til Facebook um gallann oftar en einu sinni en þeir sem benda á alvarlega galla á síðunni geta unnið allt að 60 þúsund íslenskra króna.

Á vegg Mark Zuckerberg skildi hann eftir skilaboð þar sem hann byrjaði á að biðjast afsökunar á því að brjóta friðhelgi síðu Zuckerberg. Khalil sagði jafnframt að hann hefði ekki átt neitt val eftir að Facebook hafði hunsað aðvaranir hans. Að lokum útskýrði hann gallann og gaf upp hlekki til að sanna mál sitt.

Innan nokkurra mínúta hafði verkfræðingur Facebook haft samband við Khalil til þess að fá frekari upplýsingar. Facebook aðgangi Khalil var lokað í varúðarskyni á meðan farið var yfir gallann.

Aðgangur Khalil var opnaður seinna en Facebook segir að hann eigi ekki rétt á verðlaunum því að innbrotið á síðu Zuckerberg hafi verið brot á friðhelgisreglum Facebook.

Skilaboðin sem Khalil fékk frá Facebook voru þau að það væri ekki í lagi að brjótast inn á síður annarra í því skyni að koma upp um galla. Fyrirtækið viðurkenndi þó að það hefði átt að skoða ábendingar Khalil af meiri kostgæfni.

Það sem skiptir mestu máli fyrir notendur Facebook, er; vandamálið hefur verið leyst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×