Alexis Sanchez skoraði tvívegis fyrir Barcelona í 4-1 sigri á Real Valladolid í La Liga í kvöld. Sigurinn var sá áttundi í deildinni í röð í upphafi móts.
Gestirnir náðu forystunni með marki Guerra eftir horn á tíundu mínútu en þar með má segja að þátttöku gestanna hafi verið lokið.
Alexis jafnaði með þrumuskoti utan teigs sem hafnaði efst í markhorninu. Staðan í hálfleik var 1-1.
Neymar vildi tvisvar fá vítapsyrnu en fékk ekki. Hann átti þó hlut að máli þegar Xavi skoraði með hnitmiðuðu skoti inann teigs á 53. mínútu. Tíu mínútum síðar var það Alexis sem naut góðs af sendingu Neymar og kom Barcelona í 3-1.
Neymar skoraði svo síðasta markið sjálfur eftir fallegan undirbúning Xavi og Alexis. 4-1 sigur staðreynd og Barcelona með fullt hús stiga á toppi deildarinnar.

