Heimir Hallgrímsson, annar tveggja þjálfara karlalandsliðsins í knattspyrnu, man aðeins eftir tveimur vandamálum sem upp komu í undankeppni HM sem er nýlokið.
Agamál hafa komið upp oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í karlalandsliði Íslands í gegnum tíðina. Hins vegar virðist allt hafa gengið snurðulaust fyrir sig í tíð þeirra Heimis og Lars Lagerbäck. Heimir viðurkennir að það hafi komið sér á óvart.
„Ég gaf mér að þetta yrði ofboðslega erfitt og maður yrði alltaf í því að tækla einhver vandamál,“ segir Eyjapeyinn. Þau hafi hins vegar verið afar fá.
„Ég man eftir Aroni Einari í Albaníu sem sagði eitthvað við blaðamenn og Sveppi kjaftaði liðinu,“ segir Heimir.
Vísar hann annars vegar í vanhugsuð ummæli landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar um að Albanir væru mest megnis glæpamenn og hins vegar þegar sjónvarpsmaðurinn Sverrir Þór Sverrisson upplýsti að vinur sinn, Eiður Smári Guðjohnsen, myndi byrja á varamannabekknum í fyrri leiknum gegn Króatíu.
„Annars man ég ekki eftir neinu tilfelli þar sem kalla þurfti saman fund eða annað.“
Heimir Hallgrímsson mun taka við starfi landsliðsþjálfara að lokinni undankeppni EM 2016 eða úrslitakeppninni komist liðið þangað. Ítarlegt viðtal við Heimi verður birt í Fréttablaðinu á morgun.
Heimir taldi að hann yrði alltaf í því að tækla vandamál
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
