Ítalska liðið Napoli steinlá á heimavelli fyrir tékkneska liðinu Viktoria Plzen, 3-0, í Evrópudeild UEFA en alls fóru sextán leikir fram í kvöld.
Úrslitin komu nokkuð á óvart en Tékkarnir fara nú með veglega forystu í seinni leikinn í næstu viku.
Meðal annarra úrslita má nefna að Inter hafði betur gegn rúmenska liðinu Cluj, 2-0, með tveimur mörkum frá Rodrigo Palacio. Moldríku Rússarnir í Anzhi unnu svo sannfærandi sigur á Hannover á heimavelli, 3-1.
Þá gerðu Newcastle og Metalist Kharkiv frá Úkraínu markalaust jafntefli í Englandi en heimamenn skoruðu reyndar tvívegis mark í leiknum sem var dæmt af vegna rangstöðu.
Úrslitin má sjá hér fyrir neðan en nánari upplýsingar má finna með því að smella á viðkomandi leik.
