Enski boltinn

Robin van Persie: Umkringdur af meisturum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie hefur verið frábær á sínu fyrsta ári með Manchester United en Hollendingurinn skoraði sitt 15. og 16. deildarmark í gær þegar liðið vann 4-0 útisigur á Wigan. Van Persie talaði um sigurhugarfarið innan liðsins í viðtali við MUTV eftir leikinn.

„Við verðum vissulega að taka einn leik fyrir í einu en allir í liðinu vilja verða meistarar. Ég er umkringdur af meisturum," sagði Robin van Persie við Sjónvarpsstöð Manchester United eftir leikinn.

„Þetta er sérstakt lið. Það eru allir að reyna að hjálpa hverjum öðrum og það vilja allir að allir skori. Varnarmennirnir gera allt til að hjálpa miðjumönnunum og miðjumennirnir gera sömuleiðis allt fyrir framherjana. Það eru allir tilbúnir að hlaupa og allir eru með eitt markmið," sagði Van Persie.

„Þeir kunna að vinna og það hjálpar mér mjög mikið," bætti Van Persie við en United-liðið er nú með sjö stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Robin van Persie var markahæsti leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni á árinu 2012 með 27 mörk og skoraði tvö mörk í fyrsta leik ársins 2013. Hann hefur nú þriggja marka forskot á listanum yfir markahæstu menn deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×