Innlent

Lokun Reykjavíkurflugvallar auglýst í dagblöðum í dag

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Reykjavíkurflugvelli.
Frá Reykjavíkurflugvelli. Mynd/Vilhelm.
Nýtt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar, sem gerir ráð fyrir lokun minnstu brautarinnar strax og endanlegri lokun flugvallarins eftir tíu ár, er auglýst í dagblöðum í dag, í samræmi við samþykkt borgarráðs frá því á fimmtudag. Samkvæmt skipulaginu verður æfinga-, kennslu- og einkaflug lagt af árið 2015, norður-suðurbrautin lögð af 2022 og flugvallarstarfsemi með öllu árið 2024.

Borgarráð gerir ráð fyrir að geta strax tekið ný svæði til uppbyggingar vegna lokunar litlu brautarinnar. Í sérstakri bókun meirihlutans segir að framkvæmdir geti hafist við blandaða byggð á Hlíðarendasvæði. Þó verði horft til vinnu flugvallarnefndar um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugs áður en lokið verður við skipulag Skerjafjarðar.

Óvíst er hins vegar hvort þessi áform borgarinnar ná fram að ganga. Fyrir helgi hafnaði fjárlaganefnd Alþingis að bæta inn í fjárlagafrumvarp næsta árs tillögu sem heimilað hefði afsal á flugvallarlandi í eigu ríkisins til Reykjavíkurborgar. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefnar, skýrði þá niðurstöðu með því að verið væri að vinda ofan af samkomulagi Dags B. Eggertssonar, formanns borgarráðs, og Katrínar Júlíusdóttur, þáverandi fjármálaráðherra, frá því í vor um sölu flugvallarlandsins.

Það er í samræmi við yfirlýsingu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í síðasta mánuði. Þar lagðist hann alfarið gegn lokun þriðju brautarinnar, enda ekkert fjallað um að loka henni í nýlegu samkomulagi ríkis, borgar og Icelandair.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra vísaði hins vegar í þingræðu á föstudag til eldri samninga ríkis og borgar, allt frá árinu 1999, þegar hún sagði að ríkið myndi standa við samninga og tilkynna um lokun þriðju brautarinnar fyrir áramót. Brautinni yrði þó ekki lokað fyrr en niðurstaða flugvallarnefndar lægi fyrir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×