Erlent

Dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morð á fyrrverandi kærustu og syni hennar

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Breskur karlmaður sem kyrkti fyrrverandi kærustu sína og sjö mánaða gamlan son hennar hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi. Wesley Williams var 29 ára gamall þegar hann myrti mæðginin. Daily Mail segir frá.

Mæðginin, Yvonne og Harrison Walsh fundust látin í rúmi sínu í júní síðastliðnum. Rétt eftir morðin fór Williams á Facebook þar sem hann sagði frá því sem hann hafði gert. Þar sagði hann meðal annars: „Stundum verðum við að gera hluti sem við ættum ekki að gera.“

Williams hlaut dóminn í dag í dómshúsinu í Birmingham. Við uppkvaðningu dómsins sagði dómarinn að Willams, sem neytir mikil magns kannabisefna alla jafna, væri augljóslega mjög vondur og hættulegur maður.

Williams var mjög reiður Yvonne vegna þess að hún hafði endað samband þeirra en hann hafði ætlað að biðja hennar. „Mér þykir leitt að það hafi þurft að koma til þessa,“ skrifaði hann á Facebook síðu Yvonne eftir að hann hafði drepið hana og son hennar.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×