Erlent

„Dekurbarn“ fékk skilorð fyrir manndráp af gáleysi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Ethan Couch missti stjórn á bifreið sinni í Fort Worh í Texas og ók niður fjóra gangandi vegfarendur sem létu lífið.
Ethan Couch missti stjórn á bifreið sinni í Fort Worh í Texas og ók niður fjóra gangandi vegfarendur sem létu lífið.
Sextán ára bandarískur piltur sem átti yfir höfði sér 20 ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi fékk þess í stað tíu ára skilorðsbundinn dóm vegna svokallaðrar „afflúensu“.

Pilturinn, Ethan Couch, missti stjórn á bifreið sinni í Fort Worh í Texas og ók niður fjóra gangandi vegfarendur sem létu lífið. Couch mældist með þrefalt leyfilegt áfengismagn í blóði og játaði hann á sig manndráp af gáleysi.

Geðlæknir bar vitni í málinu og taldi hann að Couch ætti ekki að fá þann fangelsisdóm sem ákæruvaldið óskaði eftir. Hann hefði alist upp hjá vellauðugum foreldrum sem rifust oft og skildu á endanum. Þá hafi móðir hans dekrað hann og hvatt til þess að hann gerði hvað sem honum sýndist. Ástand þetta er kallað „afflúensa“ og eru skiptar skoðanir á því hvort ástandið sé raunverulegt eða ekki.

Eric Boyles missti eiginkonu sína og dóttur í slysinu og segir hann í samtali við CNN að réttlætinu sé ekki fullnægt. Hann segir það bataferli sem var hafið sé fokið út í veður og vind við úrskurðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×