Innlent

Bæjarbúar slegnir vegna kynferðisbrots

Hrund Þórsdóttir skrifar
Lögreglan handtók fimm menn á Vestfjörðum í nótt í tengslum við alvarlegt kynferðisafbrot. Sóknarprestur á Ísafirði segir bæjarbúa slegna vegna málsins.

Lögreglunni á Vestfjörðum var tilkynnt um brotið á fimmta tímanum í nótt, en þar kom fram að það hefði átt sér stað í húsi í bænum. Ung kona var flutt til skoðunar á heilbrigðisstofnun Vestfjarða, þar sem hún fékk viðeigandi aðhlynningu.

Strax í kjölfarið voru fimm karlmenn handteknir og eru þeir í haldi lögreglunnar á Vestfjörðum, sem nýtur aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við rannsókn málsins. Rannsókn er á frumstigi og því hafa nánari upplýsingar ekki fengist.

Yfirheyra átti mennina í dag en nú skömmu fyrir fréttir var yfirheyrslum ólokið og ekki lá fyrir hvort mennirnir yrðu áfram í haldi. Ekki fengust upplýsingar um líðan stúlkunnar en samkvæmt upplýsingum fréttastofu dvelst hún ekki lengur á heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Magnús Erlingsson, sóknarprestur á Ísafirði segir fólk í bænum slegið.

„Ofbeldisverk eru óalgeng hérna. Það hafa einstaka sinnum komið fyrir alvarleg ofbeldisverk eins og nauðganir en ég man ekki eftir svona hópnauðgun þar sem fimm menn eru hafðir í haldi grunaðir,“ segir Magnús og bætir því við að fólki sé brugðið.“

„Fólk náttúrulega tekur eftir þessum fréttum og talar um þetta. Fréttin er bara mjög ljót.“

Hann segir samheldni lítils bæjarfélags brjótast fram á stundum sem þessari.

„Hér er góð samheldni í bænum og sérstaklega þegar eitthvað bjátar á, verða slys eða áföll og ég veit að það mun líka verða, í kringum þennan atburð.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.