Erlent

Útför Nelsons Mandela stendur yfir

AFP
Útför Nelsons Mandela, fyrrverandi forseta Suður-Afríku, hófst klukkan 6 að íslenskum tíma í morgun.

„Þessi dagur markar endalok ótrúlegs ferðalags sem hófst fyrir 95 árum,“ sagði forseti Suður Afríku, Jacob Zuma, í athöfninni. 

„Þetta eru leiðarlok 95 ótrúlegra ára frelsishetju... sem bjó til von fyrir þá sem berjast fyrir jafnrétti í heiminum,“ bætti hann við.

Um 4,500 manns eru viðstaddir útför Mandela í Qunu, meðal annars ekkja hans, Graca Machel, og fyrrverandi eiginkona, Winnie Mandela.

„Þú stendur fyrir dyggðir á borð við fyrirgefningu og sættir,“ sagði Ahmed Kathrada, náinn vinur sem sat í fangelsi með Mandela fyrir sömu sakir. „Ég hef misst bróður. Það er tómarúm í lífi mínu og ég veit ekki að hverjum ég get snúið mér,“ sagði hann.

Spjallþáttastjórnandinn Oprah Winfrey, Karl Bretaprins og athafnamaðurinn Richard Branson eru einnig meðal viðstaddra. Einnig má nefna fyrrverandi erkibiskupinn Desmond Tutu.

Winnie Mandela, fyrrverandi eiginkona Nelsons Mandela, og Jacob Zuma, forseti Suður AfríkuAFP
„Nelson Mandela var leiðtogi, hetja, fyrirmynd og okkar faðir eins og ykkar,“ sagði Jakaya Kikwete, forseti Tansaníu.

Nelson Mandela lést þann fimmta desember síðastliðinn eftir að hafa fengið lungnasýkingu. 95 kerti loga nú í útför hans, eitt fyrir hvert ár af ævi hans.

Qunu er bærinn þar sem fyrrum forsetinn og frelsishetjan ólst upp. 

Meðal þess sem staðið hefur upp úr það sem af er útförinni er ræða Joyce Banda, forseta Malaví, um hvernig hún hefur reynt að læra af Mandela og haft hann sem fyrirmynd á sínum pólitíska ferli.

Kenneth Kaunda, fyrrverandi forseti Zambíu, hélt þrumandi ræðu þar sem hann talaði um hvíta leiðtoga innan aðskilnaðarstefnuna sem Boers - hugtak sem er ekki lengur notað um hvíta frá Suður Afríku.

Afabörn Mandela, Ndaba og Nandi Mandela, töluðu bæði í útförinni. 

Spjallþáttastjórnandinn Oprah og athafnamaðurinn Richard Branson eru meðal viðstaddra í útförinni.AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×