Innlent

Engar úttektir á SMS-gagnagrunnum

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.
Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.
Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, segir fulla ástæðu til þess að gera reglulegar úttektir á SMS-gagnagrunnum fjarskiptafyrirtækjanna. Það er hins vegar ekki gert.

„Við teljum okkur ekki hafa haft afkastagetu til þess eða fjármuni,“ segir Hrafnkell aðspurður um hvers vegna stofnunin sinni ekki þessu eftirliti, og að það muni ekki breytast þrátt fyrir árás tyrkneska hakkarans á Vodafone um síðustu helgi: „Ekki miðað við þær upplýsingar sem ég hef úr fjárlögum fyrir 2014, eða fjáraukalögum 2013.“

Í mars í fyrra var gerð úttekt á upplýsingatæknimálum Símans fyrir Póst- og fjarskiptastofnun. Í kjölfarið sendi stofnunin Símanum átján úrbótatillögur, en engin þeirra sneri að geymslu ódulkóðaðra SMS-skilaboða sem sendar voru af vef Símans.

Síminn, auk Nova, eyddi öllum gögnum um helgina í kjölfar tölvuárásar tyrknesks hakkara á Vodafone, sem lak ódulkóðuðum lykilorðum og SMS-skilaboðum viðskiptavina fyrirtækisins á internetið.

Þessi úttekt var á svokölluðum umferðargagnagrunni Símans,“ segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar í samtali við Vísi. „Þar eru upplýsingar um hver hringir í hvern, hversu lengi og svo framvegis. Þessi ákvörðun laut að þeim gagnagrunni, ekki SMS-gagnagrunninum,“ segir Hrafnkell, en 42. grein fjarskiptalaga kveður á um að gögnum skuli eyða eða þau gerð nafnlaus eftir sex mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×