Innlent

Útvarpsstjóri kallaði Helga Seljan óþverra

Stefán Árni Pálsson skrifar

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, fundaði með starfsfólki sínu á Markúsartorgi í Efstaleitinu fyrir hádegi í dag. Til orðaskipta kom á milli Helga Seljan, sjónvarpsmanns, og Páls Magnússonar, útvarpstjóra, eftir fundinn og sagði Páll við Helga að hann væri „óþverri.“

Ríkisútvarpið sagði upp 39 starfsmönnum í gær en alls stendur til að fækka starfsmönnum um 60.

Mikill hiti var á fundinum og vildi fólk fá útskýringar. Helgi Seljan í Kastljósinu krafðist þess að fá svör frá útvarpsstjóranum.

Á fundinum spurði sjónvarpsmaðurinn góðkunni útvarpsstjórann út í þær kenningar að þetta útspil væri í raun allt saman leikrit til að gefa ríkisstjórninni langt nef og sýna vald sitt.

Páll brást hinn versti við og samkvæmt heimildum Vísis hundskammaði hann Helga í kjölfarið.

Eftir fundinn sjálfan reyndi Helgi Seljan að nálgast Pál og spurði hann út í þessi hörðu viðbrögð.

Páll brást ókvæða við spurningunni eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi þar sem Páll segir: „Þú ættir að skammast þín, þú ert óþverri.“

Síðar heyrðist Páll kalla Helga skíthæl. Helgi svaraði því á þann veg að viðbrögð Páls væru barnaleg. Þá svaraði Páll um hæl: „Það er skárra að vera barn en skíthæll.“

Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.