Innlent

„Hver framleiðir þetta drasl og markaðssetur fyrir börn?“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Teitur hvetur almenning til að sniðganga vörurnar og láta heyra í sér.
Teitur hvetur almenning til að sniðganga vörurnar og láta heyra í sér.
Bloggarinn og þúsundþjalasmiðurinn Teitur Atlason gagnrýnir sykurmagn í mjólkurvörum á bloggsíðu sinni í dag undir nafninu Óþverri og ullabjakk. Honum sundlaði að eigin sögn þegar hann stóð við jógúrtstampinn í Krónunni þar sem staflar af jólajógúrt frá Mjólkursamsölunni voru á sértilboði.

„Af hverju kaupir fólk þetta fyrir krakkana sína og hver framleiðir þetta drasl og markaðssetur fyrir börn?,“ skrifar Teitur, og bætir því við að það sé ótrúlegt að á sama tíma og íslensk börn séu þau feitustu í heimi sé maturinn sem framleiddur er fyrir þau eins óhollur og hugsast getur.

„Þetta á ekki bara við um jólakúlugumsið,“ segir Teitur í samtali við Vísi. „Þetta á líka við um venjulega jarðarberjajógúrt og margt fleira. Það er ósiðlegt að markaðssetja þetta sem mat, og það fyrir krakka. Þetta er bara sælgæti.“

Teitur hvetur almenning til að sniðganga vörurnar og láta heyra í sér. Þá segir Teitur lækni hafa haft samband við sig sem var ánægður með skrifin. „Hann benti mér á það að það hefur orðið sprenging í tíðni sykursýki á síðustu árum, sérstaklega á Vesturlöndum. Maturinn sem við gefum börnunum er hættulegur ef maður passar ekki upp á innkaupin.“

Teitur segist ekkert hafa á móti Mjólkursamsölunni. Þvert á móti líki honum vel við fyrirtækið. „Það eru margar vörur fínar frá þeim en þetta sykurjukk setur það allt úr samhengi. Fyrirtæki eins og þetta, sem landsmenn eiga töluverð viðskipti við, verða að sýna samfélagslega ábyrgð. Það held ég að sé aðalatriðið.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.