Erlent

Borgarstjórinn í Toronto einangraður

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Rob Ford á borgarstjórnarfundi í Toronto.
Rob Ford á borgarstjórnarfundi í Toronto. Mynd/EPA
„Við þurfum bara að búa til box utan um borgarstjórann til þess að geta komið hlutunum í verk,” segir borgarráðsmaður.

Borgarráð Toronto ætlar ekki að láta Rob Ford borgarstjóra komast upp með að stjórna borginni, þótt hann neiti að segja af sér.

Framferði hans hefur vakið hneykslun margra landsmanna og kröfur um afsögn orðið æ háværari, eftir að fram komu myndbönd af honum þar sem hann er annars vegar í „fyllerísrugli”, eins og hann orðar það sjálfur, og hins vegar æfur af reiði að hóta mannsmorði.

Hann hefur heldur betur orðið var við andúð landsmanna undanfarið, meðal annars þegar hann tók þátt í athöfn þar sem aldraðir hermenn frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar voru heiðraðir. Gerð voru hróp að honum þegar hann gekk upp að ræðustólnum, og einn þeirra, sem átti að heiðra, neitaði að taka í höndina á honum.

Borgarstjórnin á í raun ekki svo erfitt með að útiloka hann frá störfum, því formleg völd borgarstjórans í Toronto eru ekki mikil. Hann hefur atkvæðisrétt í borgarráði, en raunveruleg völd hans felast einkum í pólitískum styrkleika, sem hann getur  notað til þess að afla málum fylgis meðal borgarfulltrúanna. Slíku er vart til að dreifa lengur, þar sem hann nýtur ekki trausts samstarfsmanna sinna.

Í dag verður borið undir atkvæði í borgarráðinu hvort borgarstjóranum verði gert að taka sér fríi, biðja borgarbúa afsökunar og veita lögreglunni fulla samvinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×