Innlent

Drekasvæðið sáttaleið vegna nóbelsverðlauna?

Kristján Már Unnarsson skrifar
Reuters-fréttastofan veltir því upp hvort ríkisstjórn Noregs muni nota íslenskt olíuleitarleyfi til að leita sátta við stjórnvöld í Kína. Samskipti ríkjanna hafa verið í frosti undanfarin þrjú ár eftir að norska nóbelsnefndin veitti kínverskum andófsmanni friðarverðlaunin.

Í frétt Reuters segir að Kína og Noregur muni hugsanlega verða saman í liði í leit að olíu á Norðurslóðum. Fjölmiðlar víða um heim hafa tekið upp fréttina og ekki síst norskir þar sem segir að Norðmenn íhugi nú að leita olíu með Kínverjum við Jan Mayen.

Hér er átt við þriðja sérleyfið á Drekasvæðinu, sem Orkustofnun hyggst úthluta kínverska ríkisolíufélaginu CNOOC og íslenska félaginu Eykon. Ríkisstjórn Noregs býðst að ganga inn í leyfið, og liggur beinast við að norska ríkisolíufélagið Petoro verði þá valið.

Reuters-fréttastofan veltir því nú upp hvort norsk stjórnvöld muni nýta tækifærið til að leita sátta við kínversk stjórnvöld, sem reiddust mjög þegar norska nóbelsnefndin veitti kínverska andófsmanninum Liu Xiaobo friðarverðlaunin árið 2010. Samskipti ríkjanna hafa síðan verið við frostmark og var viðræðum um fríverslunarsamning meðal annars slitið. Reuters segir Kínverja hafa sent þau skilaboð að það sé undir Norðmönnum komið að bæta skaðann.

Því er nú spurt hvort það verði gert með því að láta ríkisolíufélög beggja landa sameinast í því verkefni að leita olíu á íslenska Drekasvæðinu. Tord Lien, olíu- og orkumálaráðherra Noregs, vildi ekki tjá sig um málið við Reuters-fréttastofuna. Hann hefur frest til 21. nóvember til að svara íslenskum stjórnvöldum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×