Fótbolti

Þrír mótmæltu fyrir utan KSÍ

Kristján Hjálmarsson skrifar
Aðeins þrír létu sjá sig fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Aðeins þrír létu sjá sig fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ. Mynd/Daníel
Aðeins þrír mættu til að mótmæla miðasölunni á leik Íslands og Króatíu fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ. Boðað hafði verið til mótmælanna í gær á Facebook.

„Við erum á móti spillingu KSÍ í miðasölu fyrir Króatíuleikinn,“ segir í lýsingu Facebook-síðu sem stofnuð hefur verið í tilefni mótmælanna. Í gær höfðu um 2.500 manns skráð sig á síðuna, en mikillar óánægju gætir vegna sölufyrirkomulagsins. Miðarnir fóru í sölu klukkan 4 á aðfaranótt þriðjudags og seldust miðarnir upp áður en flestir stigu úr rekkju.

Á síðunni var þess krafist að KSÍ axli ábyrgð og segir á event-síðu mótmælanna að mikilvægt sé að reiðin beinist gegn KSÍ en ekki að leikmönnum landsliðsins.

„Strákarnir eiga allan okkar stuðning skilið og munum við að sjálfsögðu standa við bakið á þeim, burt séð frá því hvort það verður á vellinum eða heima í stofu. Það er hins vegar ekki ásættanlegt að Íslendingar, með sitt ótrúlega skammtímaminni, gleymi því sem átti sér stað fyrir rúmum tveimur sólarhringum. Forsvarsmenn KSÍ vita hversu fljótir Íslendingar eru að gleyma og bíða þess vegna af sér skömmina í staðinn fyrir að bæta upp fyrir mistökin eða taka almennilega ábyrgð á þeim,“ segir á síðunni, en forsvarsmönnum KSÍ verður afhent yfirlýsing og áskorun frá hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×