Innlent

Samferðamenn Jóns Gnarr um hann: "Hann er óútreiknanlegur, eins og allir vita"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Jón tilkynnti í útvarpsþættinum Tvíhöfða í morgun að hann ætlaði að hætta í pólitík. Hann segir ákvörðunina tekna að vandlega íhuguðu máli en veit ekki hvað tekur við. Hann dreymir um að opna bingóbar. „Það er að segja bar sem er bingó og bar, þar sem þú getur drukkið og spilað bingó. En mér finnst það kannski dálítið mikið vesen svo ég veit ekki hvort ég læt af því verða,“ segir Jón.

Hann segir jákvæð samtöl við fólk standa upp úr eftir störf hans í stjórnmálum. „Vinnan er að mörgu leyti uppbyggileg og skemmtileg en mér finnst hlutur leiðinlegra samskipta of mikill.“

Besti flokkurinn mun renna saman við Bjarta framtíð og tilkynnti flokkurinn í dag framboð til borgarstjórnarkosninganna í vor. Hann hyggur jafnframt á framboð víða um land.

Jón var vel þekktur sem listamaður og grínisti áður en hann tók við sem borgarstjóri í Reykjavík þann 15. júní árið 2010. Ári fyrr stofnaði hann Besta flokkinn sem fékk 6 borgarstjórnarfulltrúa kjörna. Góðu gengi í kosningunum var fagnað með eftirminnilegum hætti, eins og sjá má í meðfylgjandi sjónvarpsfrétt. Jón hefur verið ötull talsmaður mannréttinda og oft farið óhefðbundnar leiðir til að koma boðskap sínum á framfæri.

Heiða Kristín Helgadóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, hefur starfað náið með Jóni og mun áfram vinna með Bjartri framtíð. Sjálf hyggur hún ekki á framboð og hún virðir ákvörðun Jóns. „Það er búið að búa til mjög stórt pláss fyrir okkur hin til að halda áfram og gera mjög góða hluti,“ segir Heiða.

S. Björn Blöndal, pólitískur ráðgjafi Jóns, hyggur hins vegar á framboð í vor. „Mér finnst þetta bara góð ákvörðun hjá Jóni, hann veit hvað hann er að gera og við stöndum öll á bak við hann í þessu. Þetta er bara nýtt upphaf,“ segir S. Björn.

Hvað finnst þér um þessa ákvörðun Jóns?

„Það er gríðarleg eftirsjá að Jóni úr borgarpólitíkinni, það er það sem stendur upp úr,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs. „Ég held að hann skilji eftir sig ákveðna trú á því að stjórnmálin geti endurnýjað sig og það sé hægt að gera þetta nýtt og skemmtilegra, en ég neita því ekki að hann skilur líka eftir sig stórt skarð sem er vandfyllt,“ segir Dagur.

„Mér finnst ákvörðun hans kjarkmikil og til marks um að hann er óvenjulegur maður sem gerir óvenjulega hluti ,“ segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna.

Hvernig var að starfa með Jóni?

„Það hefur verið gott,“ segir Sóley. „Hann er skrýtinn en það erum við sjálfsagt öll. Hann er öðruvísi og við höfum tekið upp öðruvísi vinnubrögð í Reykjavík, að hluta til vegna hans,“ segir hún.

„Auðvitað hefur okkur greint á í mörgum efnum og ég hef gagnrýnt margt af því sem verið hefur gert á þessu kjörtímabili en það heur auðvitað aldrei snúist um persónuna Jón Gnarr,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins.

Verður einhver eftirsjá að honum úr pólitíkinni?

„Já, hann er auðvitað litríkur stjórnmálamaður,“ segir Júlíus.

Snorri Steinþórsson hefur starfað sem kokkur í Ráðhúsinu frá opnun þess. „Ég er bara dálítið svekktur verð ég að segja. Ég hefði alveg verið til í að hafa hann áfram sem borgarstjóra,“ segir Snorri. Hann segir Jón ekki mikinn matmann. „En hann getur dottið í að vera grænmetisæta í mánuð eða tvo en svo fær hann sér hamborgara, franskar og kokteilsósu allt í einu, upp úr þurru. Þannig að hann er óútreiknanlegur, eins og allir vita.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.